Kannast þú við að eiga í samskiptum sem eru þér krefjandi, samskiptum sem kalla eftir að þú eigir í þér myndugleika, að þú eigir traust í þér þó friðurinn geti verið mismikill?

Kannast þú við það hvernig maður getur tapað tilfinningunni fyrir kjarna sínum, tapað tímabundið tengslunum við þann grundvöll sem tilvera manns byggir á hið innra?

Stundum getur verið svo auðvelt að tætast upp, að rofna á einn hátt eða annan.
Ég get strögglað við þetta.

 

Píslarsagan er uppfull af flóknum samtölum, þar sem Jesús finnur sig í aðstæðum sem enginn myndi óska sér. Í gegnum allt, líka í gegnum efasemdir sínar, í gegnum sársaukann og óttann, heldur Jesús tengslum sínum órofnum.
Jesús þekkir þann grundvöll sem líf í fyllstu gnægð hvílir á.

Eitt með Guði, í gegnum allt, þrátt fyrir allt. Örugg í Guði, þrátt fyrir ótraustar aðstæður.

Pontíus Pílatus spyr Jesús: ,,Hvað er sannleikur?“
Hispursleysi Pílatusar speglar einhvern veginn svo vel inn í tímana okkar. Undanfarin ár hafa sýnt hve auðvelt það getur verið fólki, fjölmiðlum, stofnunum, hreyfingum að reka hentistefnu varðandi sannleikann.
Þau eru mörg málefnin sem bera þessu vitni. Samfélagsmiðlarnir minna okkur á þetta.

Hvað er satt í þínu lífi? Hver er sannleikur lífs þíns?
Hvað hjálpar þér að halda tengslunum við kjarna þinn, að finna þig í öruggum tengslum við grundvöll tilveru þinnar?
Hvað hjálpar þér að varðveita rödd þína og leyfa henni að hljóma?

,,Mitt ríki er ekki af þessum heimi“ segir Kristur.
Það sem hann er að segja er þetta: ,,Þó þið takið allt frá mér, þá takið þið aldrei frá mér Guð. Þið takið aldrei frá mér eininguna við alheimsandann sem allt umvefur.“

Megum við finna í öllum okkar aðstæðum að við tilheyrum stærra samhengi, að Guð er með okkur og meðtekur okkur; hvorki meiri né minni en við erum.
Megum við finna í öllum okkar aðstæðum að við könnumst við og göngumst við sjálfum okkur, hinu ljúfa og hinu leiða. Megi raddir okkar hljóma og megi raddir okkar minna á Guð sem elskar.

 

Séra Hjalti Jón Sverrisson

Lofgjörðarlag vikunnar kemur frá Hillsong, lítum til Guðs og við verðum blessuð: https://www.youtube.com/watch?v=z0QyZFMrtPo

Lát mig ná rétti mínum, Guð,
sæktu mál mitt gegn miskunnarlausri þjóð,
bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
Því að þú ert sá Guð sem er mér vígi,
hví hefur þú útskúfað mér,
hví verð ég að ganga um harmandi,
kúgaður af óvinum?
Send ljós þitt og trúfesti þína,
þau skulu leiða mig,
þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga,
til bústaðar þíns,
svo að ég megi inn ganga að altari Guðs,
til Guðs, minnar fagnandi gleði,
og lofa þig undir hörpuslætti,
Guð, þú Guð minn.
Hví ert þú buguð, sál mín,
og ólgar í mér?
Vona á Guð
því að enn mun ég fá að lofa hann,
hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir. Víst var syndin í heiminum áður en lögmálið kom til en synd verður ekki metin til sektar ef ekkert er lögmál. Samt ríkti dauðinn frá Adam til Móse, einnig yfir þeim sem höfðu ekki syndgað á sömu lund og Adam en hann er fyrirmyndan Krists sem koma átti.
En náðargjöf Guðs og falli Adams verður ekki jafnað saman. Einn maður féll og við það dóu allir, en einn maður, Jesús Kristur, er sú náðargjöf Guðs sem allir skulu njóta ómælt. Og ekki verður þeirri gjöf jafnað til þess sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess sem hinn eini hafði gert varð sektardómur yfir öllum en náðargjöfin er sýknudómur handa öllum sem brutu. Ef misgjörð hins eina manns leiddi til þess að dauðinn tók völd með þeim eina manni, hve miklu fremur munu nú þeir sem þiggja hina ómælanlegu gjöf náðar og sýknunar fá líf og ríki vegna hins eina, Jesú Krists.
Allir urðu sekir vegna afbrots eins. Svo verða allir sýknir og öðlast líf sakir þess fullkomna verks sem einn vann. Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina.
Hér við bættist svo lögmálið til þess að afbrotin yrðu sýnilegri. En að sama skapi sem syndin óx varð náðin ríkulegri. Eins og syndin ríkti með dauðanum á náðin að ríkja með réttlætinu og leiða til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.

Menn æðsta prestsins fóru nú með Jesú frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Þeir fóru ekki sjálfir inn í höllina svo að þeir saurguðust ekki heldur mættu neyta páskamáltíðar. Pílatus kom út til þeirra og sagði: „Hvaða ákæru berið þið fram gegn þessum manni?“
Þeir svöruðu: „Ef þetta væri ekki illvirki hefðum við ekki selt hann þér í hendur.“
Pílatus segir við þá: „Takið þið hann og dæmið hann eftir ykkar lögum.“
Þeir[ svöruðu: „Okkur leyfist ekki að taka neinn af lífi.“ Þannig rættist orð Jesú þegar hann gaf til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.
Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Eru þetta þín orð eða hafa aðrir sagt þér frá mér?“
Pílatus svaraði: „Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gert?“
Jesús svaraði: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“
Þá segir Pílatus við hann: „Þú ert þá konungur?“
Jesús svaraði: „Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd.“
Pílatus segir við hann: „Hvað er sannleikur?“
Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: „Ég finn enga sök hjá honum.Þið eruð vanir því að ég gefi ykkur einn mann lausan á páskunum. Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“
Þeir hrópuðu á móti: „Ekki hann heldur Barabbas.“ En Barabbas var ræningi.