Öll höfum við okkar sögu að segja, saga sumra en styttri en annarra, sumar sögur eru þyrnum stráðar og átakanlegar á meðan aðrar sögur virðast hafa umlykjandi gylltan hjúp og fá góðan endi. Saga Rutar, Naómíar og Orpuh sem lesa má um í Rutarbók er átakanleg. Naómí missir ekki einungis mann sinn heldur báða syni sína. Eftir stendur hún með tvær tengdadætur. Hún hrópar í angist sinni, í harmi sínum og sorg og hvetur tengdadætur sínar til að leita aftur til þess lands sem þær komu frá því engin framtíð er sjáanleg fyrir þær ef þær fylgja tengdamóður sinni. Í sorg sinni er þetta úrvinnsla Naómíar, hún ýtir þeim frá sér sem standa næst, tengdadætrum sínum sem einnig eru í sárum. Hún þrábiður þær að snúa aftur til heimalands þeirra en ber einungis hag þeirra fyrir brjósti sér, hún vill að þær öðlist betra líf og sér ekkert slíkt framundan ef þær fylgi henni. Orpah ákveður að snúa aftur til heimalands síns. Mér finnst oft Orpuh og Rut vera teflt upp sem andstæðum þó svo að það sé ekki sagt með berum orðum. Rut ákvað að vera eftir hjá tengdamóður sinni og margsinnis er minnst á trúfesti og tryggð Rutar í Rutarbók. Þekkjum við ekki öll sunnudagaskólalagið: Því Rut hún er svo sönn og góð ?

 

En hvað þá með Orpu sem ákvað að fylgja ekki tengdamóður sinni, er hún þá ekki sönn og góð. Hún valdi aðra leið. Við vitum ekki hvernig hennar saga endaði en við vitum að hún taldi best að snúa aftur til sinnar fjölskyldu, aftur í sitt öryggi og uppruna. Við þurfum að ávarpa þá tilhneigingu okkar að smána og varpa skömm á þá sem kjósa að hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig eftir mikil áföll eða missi. Það krefst hugrekkis, að huga að sjálfum sér svo við getum hugað að öðrum. Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það ?

 

Í kjölfar þess að Rut ákveður að fylgja tengdamóður sinni heyrum við að mínu mati einn fallegasta texta sem finna má í Biblíunni: hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. Þar sem þú deyrð þar dey ég og þar vil ég verða grafin

 

Þú ert ekki ein. Rut ákveður að fylgja tengdamóður sinni út í óvissuna. Þær setjast að í Betlehem. Ef við hlaupum hratt yfir sögu þá giftist Rut þar manni að nafni Bóas og eignast þau barn saman. Í lok Rutarbókar fáum að vita að Rut er formóðir Davíðs og þ.a.l. Jesú.óur ﷽﷽﷽﷽﷽﷽blum að m  ki alltaf hvað brgur eru þyrnum str þem flnnig fl

Saga Naómíar og Rutar endar vel. Sagan hófst á þá leið að dauði og harmur var allt um lykjandi, það var það eina sem komst að. Við sjáum algjöran viðsnúning og sagan endar í lofgjörð og gleði, ekki nóg með það að Rut og Naómí eignast öruggt skjól heldur leiðir hjónaband þeirra Bóasar og Rutar af sér sjálfan frelsarann. En leiðin að góðum sögulokum var stráð þyrnum – Naómí, Orpah og Rut upplifðu mikinn harm og óvissu. Rut vissi ekki hvernig sagan myndi enda en hún óð út í óvissuna með tengdamóður sinni. Þær voru saman og höfðu styrk af hvor annarri.

 

Um þessar mundir sjáum við margar konur stíga fram og greina frá ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Hugrakkar konur sem hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika. En þær sem stíga ekki fram eru líka þolendur, eru líka hugrakkar og hafa einnig gengið í gegnum mikla erfiðleika. Okkar verkefni er að vera til staðar fyrir þessar konur, að styðja þær og fylgja þeim í þeirra baráttu fyrir réttlæti.

 

 

Hugsanlega var samstaða það eina sem Rut gat gert þegar hún stóð frammi fyrir grátbólginni tengdamóður sinni sem vissi ekki hvernig hún ætti að taka á harmi sínum öðruvísi en að hvetja þær til að yfirgefa sig. Hugsanlega var það eina sem Rut gat gert að segja ég sé þig, ég styði þig, þú ert ekki ein.

Enn þann dag í dag stöndum við fyrir framan hvort annað með þessi sömu orð á vörunum. Þörf manneskjunnar til að vera séð, til að fá styrk mun líklega aldrei breytast. Og sem betur fer breytist heldur ekki mannlegt eðli, eðli sem er knúið áfram af kærleika og samstöðu.

 

Sögur okkar fléttast saman við sögur annarra og úr verður falleg og fjölbreytt mynd. En myndin er þó ekki laus við dimma dali né gylltar hæðir.

Við vitum ekki hvernig sagan okkar endar en við vitum að við göngum ekki í gegnum söguna ein. Ekki einungis erum við umvafin manneskjum sem sýna okkur samstöðu og samhug heldur er einnig kærleiki Guðs umlykjandi, á bak og brjóst.

Þótt ég gangi um dimman dal óttast ég ekkert ill því að þú ert hjá mér.

Sr. Aldís Rut Gísladóttir

 

Lofgjörðarlag dagsins er King og Kings með Hillsong. Konungur konunganna það er Hann: https://www.youtube.com/watch?v=dQl4izxPeNU

 

Þegar mönnum varð ljóst að Móse seinkaði ofan af fjallinu þyrptust þeir að Aroni og sögðu við hann: „Komdu og búðu til guð handa okkur sem getur farið fyrir okkur því að við vitum ekki hvað varð um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út af Egyptalandi.“Aron sagði við þá: „Slítið gullhringana úr eyrum kvenna ykkar, sona og dætra og færið mér.“ Þá sleit allt fólkið gullhringana úr eyrum sér og færði Aroni. Hann tók við þeim úr höndum þeirra, bræddi og steypti úr þeim kálf. Þá sagði fólkið: „Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.“
Þegar Aron sá þetta reisti hann altari fyrir framan kálfinn. Síðan hrópaði hann og sagði: „Á morgun verður Drottni haldin hátíð.“Morguninn eftir voru þeir snemma á fótum, færðu brennifórnir og leiddu fram dýr til heillafórna. Því næst settist fólkið til að eta og drekka og stóð síðan upp til að skemmta sér.
Þá sagði Drottinn við Móse: „Farðu niður eftir því að þjóð þín, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefur steypt sér í glötun. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi sem ég bauð þeim. Þeir hafa steypt sér kálf, fallið fram fyrir honum, fært honum sláturfórnir og sagt: Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.“

Þá sagði Pétur: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“ Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég yður að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn vegna Guðs ríkis án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf.“

Já, trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan.
Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja. En þeir sem ríkir vilja verða falla í freistni og lenda í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.
Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum. En þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.
Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.