Fróðleiksmolar

Fyrir Kristsburð reyndu menn að friðþægja fyrir syndir sínar með því að slátra dýri. Athöfnin fór þannig fram að fyrst var syndin viðurkennd, síðan var dýrinu slátrað, þá var blóðinu stökkt á altarið og hluti fórnarinnar brenndur á því.  Þetta átti að veita friðþægingu og bæta sambandið milli manns og Guðs.

Oft var lambi slátrað og í því samhengi er hægt að skilja orð Jóhannesar skírara í Jóhannesarguðspjalli 1:29 er hann segir:  „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“

Guð er réttlátur – Rómverjabréfið 3:21-26

„Réttlæti og trú

En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.  Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn[ þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.“

Guð er réttlátur.  Það merkir að hann er samkvæmur sjálfum sér og sá sem hann segist vera.  Guð réttlætir manninn.  Það er ekki maðurinn sjálfur sem réttlætir sig heldur Guð.  Trúin á Jesú er gjöf frá Guði sem við getum þegið eða hafnað.  Fyrir trúna á Jesú verðum við réttlát frammi fyrir Guði.  Þetta er óverðskuldað, þ.e. við höfum ekki unnið til þess.  Réttlætingin er vegna óendanlegs kærleika Guðs til okkar mannanna.

Líf í dag – Rómverjabréfið 5:1-11

„Réttlætt af trú

Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.  Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann kynni einhver ef til vill að vilja deyja. En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.  Því fremur mun hann nú frelsa okkur frá reiðinni þar sem við erum réttlætt fyrir blóð Krists. Hafi Guð, þegar við vorum óvinir hans, tekið okkur í sátt með dauða sonar síns, mun hann því fremur nú, þegar hann hefur sætt okkur við sig, frelsa okkur með lífi hans. Og ekki það eitt, heldur fögnum við í Guði vegna Drottins vors Jesú Krists sem hefur sætt okkur við Guð.“

Kristur dó á krossinum og reis upp frá dauðum.  Hann lifir í dag.  Hann tók á sig okkar syndir.  Með lífi hans erum við frelsuð frá syndinni.  Það merkir ekki að við séum syndlaus heldur að syndin stjórnar ekki lengur lífi okkar.  Það er Guð sem er við stjórnvölinn.  Syndin er þó ekki eitthvað sem við eigum að sætta okkur við og enn síður að reyna að réttlæta, heldur er hún nokkuð sem við berjumst gegn og stefnum að því sem er laust við alla synd.

Heilagur andi – Galatabréfið 5:22-23

„En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“

Filippíbréfið 4:8-9

„Að endingu, systkin,[ allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.“

Fyrir trúna á Jesú Krist gefur Guð okkur sinn heilaga anda.  Allt það sem rætt er um í þessum ritningarstöðum eru ávextir andans og trúarinnar.  Þ.e. góð verk eru ekki eitthvað sem við þurfum að gera fyrst til að Guð réttlæti okkur heldur eru þau afleiðing trúarinnar.  Kristinn maður á að vilja gera það sem er gott og rétt.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum
og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína
og hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim eins og silfri
og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá mun þér lærast að óttast Drottin
og veitast þekking á Guði.
Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.