Hvað eiga þeir sameiginlegt þessir tveir, tollheimtumaðurinn sem þráir að hitta Jesú og eitt frægasta illmenni kvikmyndasögunnar, Svarthöfði úr stjörnustríðsmyndunum. Sakkeus var tollheimtumaður, hann var óvinsæll og þegar fólk nálgaðist hann þá hefur það oft verið tilbúið að mæta mótlæti, tilbúið í leiðindi. Við könnumst örugglega mörg við slíkar aðstæður að ganga til móts við einhvern eða eitthvað og vera í huganum undirbúin undir baráttu. Við göngum þá til fundarins með hnefana á lofti, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Sakkeus var örugglega meðvitaður um þessa stöðu, fann að í lífi hans var úrbótatækifæri, fann að það vantaði eitthvað. Hjarta hans kallaði á lífsfyllingu og það ákall leiddi hann á vettvang þegar hann frétti af komu Jesú. Ákall hjartans var svo sterkt að það fékk hann fullorðinn manninn til að klifra upp í tré til að sjá og ná athygli Jesú.

 

Svarthöfði var svo að sumu leiti í sömu stöðu, varmenni sem fæstir vildu hitta og enginn kom á hans fund til að eiga góða og innihaldsríka stund. Flestir höfðu allar sínar varnir upp þegar farið var á fund Svarthöfða. En saga hans var engu að síður harmsaga, ótti og missir voru þegar allt kom til alls mótunarþættir í hans sögu.

 

Þeir eiga það svo sameiginlegt  Sakkeus og Svarthöfði,  að í sögu þeirra verða vendipunktar, þar sem allt snýst við. Vendipunktar þar sem óánægjan, gremjan og allt það neikvæða sem hafði stjórnað svo lengi hugsunum þeirra, orðum og gjörðum vék fyrir öðru. Fyrir ást, þránni til að gera betur, til að vernda þann neista gleði og hamingju sem bjó djúpt innra með þeim.

 

Í fyrra Korinthubréfi Páls Postula segir: Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi, falleg orð og þau mætti einnig setja fram svona: Kærleikurinn bregst aldrei.

 

Það gerast kraftaverk þegar kærleikurinn er ráðandi afl í lífi okkar. Í lífi Sakkeusar varð stór breyting þegar Jesús kom til hans ekki í baráttuhug heldur mætti honum af kærleika. Jesús lagði til að þeir gætu hist í góðu tómi yfir mat heima hjá Sakkeusi. Þetta vakti undrun og jafnvel hneikslan margra en það var þó það sem gerðist. Þeir áttu saman góða stund yfir mat og þegar Sakkeus upplifði kærkleika þá breyttist hann. Hann sneri við blaðinu, gaf þeim sem þurftu og lagði sitt á vogaskálarnar til að miðla kærleika og sanngirni í kringum sig. Kærleikurinn fann hjarta hans og tók þar bólfestu.

 

Í stjörnustríðsmyndinni gerðist það að sonur Svarthöfða kom til hans og í stað þess að berjast við hann upp á líf og dauða, eins og til var ætlast, kastar hann frá sér vopni sínu. Hann segir við Svarthöfða: Ég veit að það er enn gott í þér og ég ætla ekki að berjast við þig. Hvað gerist? Jú þegar sonur hans mætti honum ekki með hnefa á lofti heldur af kærleika þá breyttist hann. Kærleikurinn fann hjarta hans og tók þar bólfestu.

 

Þeir eiga mögulega ekki margt annað sameiginlegt, Sakkeus og Svarthöfði, en þeir eiga sameiginlegt það sem mestu máli skiptir. Þeir fundu kærleikan og hann breytti þeim. Þessar tvær frásögur, önnur úr lífi Jesú og hin úr hugarheimi George Lucas eru dásamleg dæmi um það sem Páll Postuli segir í fyrra Korinthubréfi.

 

Kærleikurinn fellur aldlrei úr gildi.

 

Séra Sigfús Kristjánsson

Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni. Hann gerði það til að beygja þig og reyna þig, til þess að komast að raun um hvað þú hafðir í huga, hvort þú hygðist halda boðorð hans. Hann auðmýkti þig með hungri en gaf þér síðan manna að eta sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu. Hann vildi gera þér ljóst að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði heldur hverju því sem fram gengur af munni Drottins.

Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga.
Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.
Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“
Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu.
Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.