Jesú þekkti notagildi saltsins og notaði það við kennslu sína eins og guðspjall dagsins gefur til kynna en þar segir hann við lærisveina sína:

“Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum”.

Til forna var salt mikils metið. Grikkirnar kölluðu saltið guðdómlegt. Rómverjar töldu að ekkert væri nytsamlegra en sólin og saltið. Á tímum Jesú taldi fólk saltið hafa þrjá eiginleika. Salt tengist hreinleika, varðveislu og var góður bragðbætir. Án efa benti litur þess til þess að það væri hreint. Rómverjar sögðu að það væri hreinast alls vegna þess að það væri runnið frá því sem væri hreinast alls, sólinni og sjónum. Saltið var frumstæðast allra fórna sem guðunum voru færðar. Gyðingar færðu saltaðar fórnir.

Af þessu má sjá að þegar Jesús Kristur segir að vilji kristið fólk vera salt jarðar þá eigi það að vera öðrum gott fordæmi um þennan hreinleika með dyggðugu líferni sínu. Dyggð er ákveðin og viðvarandi tilhneiging til að gera hið góða og að gefa það besta af sjálfum sér. Það er afleiðing þess að leitast við að breyta samkvæmt vilja Jesú Krists og að taka framförum í því sem gott er. Hinar kristnu höfuðdyggðir eru trú, von og kærleikur. Af þeim spretta allar aðrar dyggðir.

Við sem erum kristim getum alltaf skoðað okkur sjálf og bætt ráð okkar. Kristur bendir á að kristnu fólki beri skylda til að halda á lofti og heiðra mælivarða hreinnar hugsunar, orða og verka. Enginn má víkja frá þeirri reglu að vera heiðarlegur né lækka siðferðisþröskuld sinn í heimi þar sem allt virðist vera leyfilegt, þar sem tálbeitur syndarinnar eru á hverju götuhorni. Enginn má þó draga sig í hlé úr þessum heimi heldur ber honum eins og postulinn Jakob segir að “varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum”. (Jak.1.27)
Til þess þarf sérhver að brýna viskuna, hugrekkið og réttlætiskenndina og bera ábyrgð gagnvart eigin breytni. Þetta eru dyggðir sem sérhver kristinn einstaklingur ætti að heiðra.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Lofgjörðarlag vikunnar er með Mack Brock og heitir I Am Loved. Drottinn ég er elskuð / elskaður af þér https://www.youtube.com/watch?v=9OmYhgvwQa8&list=RDdiQPE7lYNsQ&index=4

Lát skurðgoðaflokk þinn bjarga þér
þegar þú hrópar á hjálp.
Stormurinn ber hann burt,
vindurinn tekur hann
en sá sem leitar hælis hjá mér
mun erfa landið
og taka mitt heilaga fjall til eignar.
Einhver segir:
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Þolið aga. Guð fer með ykkur eins og börn sín. Öll börn búa við aga. Ef Guð agar ykkur ekki þá eruð þið ekki börn hans heldur þrælborin. Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.
Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

11 Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. 12 Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Salt og ljós

13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. 15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. 16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.