Tvær tilfinningar stjórna öllum okkar viðhorfum, ákvörðunum og gjörðum. Annars vegar er það kærleikur og hins vegar ótti. Ótti er sterk tilfinning sem að gerir það að verkum að við reynum að halda fast í það sem við eigum og gætum þess að aðrir taki ekki það sem okkur er ætlað. Við þekkjum öll að sækja um starf eða nám, keppast eftir að fá hlutverk eða að ná okkur í maka. Það getur tekið á taugarnar þegar einhver sækist eftir hinu sama og við óttumst að viðkomandi geti skyggt á okkur. Við förum að efast um okkur sjálf og berum okkur saman. Allt í einu rifjast upp allt sem við höfum gert sem ekki hefur farið okkur í hag, og veikleikar okkar og brestir taka góðan vaxtakipp. Það er ekkert sem vekur upp jafn sterk óttaviðbrögð og óttinn við niðurlægingu og þá skömm sem hellist yfir okkur í kjölfarið.

Næsta skref er að finna eitthvað í fari hinna sem við getum notað til að upphefja okkur sjálf. Við berjumst áfram og óttinn vex í hverju skrefi. Á þessum tímapunkti eru styrkleikar okkar og hæfileikar gleymdir og við upplifum okkur lítils virði.

Í Matteusarguðspjalli segir:

Gott þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.

Ef við stöldrum við og skoðum hverju okkur hefur verið treyst fyrir, hvernig höfum við staðið okkur? Guð treystir okkur fyrir stórum og mikilvægum hlutverkum. Öll samskipti sem við eigum við annað fólk fela í sér mikla ábyrgð. Upplifir fólkið í kring um okkur kærleika og vex í hlutverkum sínum þegar það talar við okkur eða tölum við fólk niður og verðum til þess að það situr eftir með ótta og óöryggi? Orð og gjörðir okkar hafa áhrif á fólkið í umhverfi okkar. Það er ekkert jafn bráðsmitandi og ótti og skömm. Ótti og skömm geta smitast og lagst á heilu fjölskyldurnar eða lamað heilan vinnustað. Takið eftir því hvernig sumt fólk gleður okkur með nærveru sinni á meðan aðrir veita mesta gleði þegar þeir fara.

Við viljum flest að fólkið í kring um okkur upplifi kærleika og traust. Það getur samt sem áður verið flókið að gefa öðrum það sem við ekki höfum sjálf. Gott fólk gerir særandi hluti sem eftir á virðast óskiljanlegir. Við missum öll stundum stjórn á skapi okkar og hrösum. Það er hluti af því að vera manneskja í þessum heimi. Jesú kenndi að samband okkar við Guð, okkur sjálf og hvort annað, byggir á heiðarleika. Við getum hvorki þegið náð og kærleika Guðs, né gefið hann öðrum, ef við festumst í ótta og skömm. Stærsta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum er að hafa kjark til að viðurkenna mistök og orða það sem miður hefur farið. Þá getum við þegið þá gjöf að fyrirgefa okkur sjálfum. Aðeins þegar við getum tekið okkur sjálf í sátt og raunverulega fyrirgefið okkur sjálfum, getum við gefið öðrum fyrirgefingu. Þá öðlumst við nýtt frelsi þar sem við getum haft sjálfstraust, verið óhrædd við að leyfa hæfileikum okkar að njóta sín og óttinn við höfnun minnkar. Við getum horfst í augu við okkur sjálf og þótt vænt um okkur með kostum og brestum. Samskipti okkar við aðra geta einkennst af kærleika og gleði og við höfum ekki lengur þörf fyrir að stjórna öðrum eða gagnrýna. Við öðlumst traust á Guð, okkur sjálf og aðra.

Sr. Karen Lind Ólafsdóttir

Ég elska Drottin
af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
Hann hneigði eyra sitt að mér
þegar ég ákallaði hann.
Snörur dauðans umkringdu mig,
angist heljar kom yfir mig,
ég mætti nauðum og harmi.
Þá ákallaði ég nafn Drottins:
„Drottinn, bjarga lífi mínu.“
Náðugur er Drottinn og réttlátur
og Guð vor er miskunnsamur.
Drottinn verndar sakleysingja,
ég var í nauðum og hann bjargaði mér.
Vertu aftur róleg, sála mín,
því að Drottinn gerir vel til þín.
Þú bjargaðir lífi mínu frá dauða,
auga mínu frá tárum,
fæti mínum frá hrösun.
Ég geng frammi fyrir Drottni
á landi lifenda.

Ef við nú prédikum að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkur ykkar sagt að dauðir rísi ekki upp? Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun okkar, ónýt líka trú ykkar. Við reynumst þá vera ljúgvottar um Guð þar eð við höfum vitnað um Guð að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. Ef dauðir rísa ekki upp er Kristur ekki heldur upprisinn en ef Kristur er ekki upprisinn er trú ykkar fánýt. Syndir ykkar eru þá ekki enn í burtu teknar. Þá eru einnig þau glötuð sem sofnuðu í trú á Krist. Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna.
En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru. Eins og dauðinn kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni.

Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.