Í guðspjalli dagsins lesum við frásögur af því þegar Jesús læknar fólk. Hann læknar líkþráan mann sem hann biður um að segja engum frá, líkþrátt fólk á tímum Jesús,var fólk, sem enginn vildi umgangast eða koma nálægt. Þau voru útskúfuð úr samfélaginu og þurftu að lifa einangruð utan þess. Síðan kemur til hans hundraðshöfðingi sem er þar tákn valdsins og kúgunar innrásarhersins í Ísrael og auk þess útlendingur annarrarr trúar og biður hann að lækna son sinn sem er illa haldinn af alvarlegum sjúkdóm. Jesús sér trú mannsins og læknar son hans.

Hvenær sem Jesús komst í snertingu við sjúkdóma eða eymd, sýndi hann samúð og læknaði ýmist með snertingu, nærveru eða orðum. Kannski má segja að Þetta hafi verið hluti að auðmýktinni sem hann öðlaðist í eyðimörkinni þegar satan freistaði hans og bauð honum að losna við krossinn og þær þjáningar og sársauka sem beið hans þar. En Jesús hafnaði tilboði satans og valdi erfiðu en réttu leiðina, hann valdi að hlýða föðurnum og leiðsögn hans. Hann dvaldi meðal fólksins í þjónustu við það, hann gat fundið sársauka þess í eigin hjarta og valdi að lækna og líkna þeim sem á því þurftu að halda.

Á tímum Jesús var engin þekkt lækning fyrir líkþráa eða holdsveika, þannig að þegar því var slegið föstu að fólk væri líkþrátt var það dæmt til útlegðar frá samfélaginu og þar með dæmt til bæði andlegrar og líkamlegrar þjáningar. Holdsveikum var meinuð aðganga að borgum og þeir máttu ekki snerta aðrar manneskjur og enginn tók áhættuna á að snerta þau. Þau sem raunverulega voru líkþráir litu ekki vel út, vegna þjóðfélagsstöðunnar sem þau voru sett í voru þau illa til reika fyrir utan sárum setta líkama og tilfinningaleysi í útlimum. Gyðingar töldu að engin lækning væri til fyrir líkþráa önnur en Guð sjálfur, eins og raunin varð í guðspjallinu sem við heyrðum áðan.

Holdsveiki var einnig af mörgum talin vera refsing Guðs fyrir syndir þeirra sem veikir voru, þetta gerði það að verkum að samúð í garð þeirra líkþráu var  engin. Oft voru holdsveikir grýttir ef þeir komu of nálægt öðru fólki, þannig bjó þetta sjúka fólk við einmanaleika, örvæntingu og vonleysi. En Jesús komið til móts við líkþráa manninn og gaf honum nýtt líf.

Hverjir eru líkþráir í samfélagi samtímans á Íslandi, er það utangarðsfólk og fíklar, þetta fólk sem við þekkjum flest til en viljum helst ekkert vita af, fólkið sem veldur okkur vandræðum er óþægilegt. Eða eru það flóttamennirnir sem við tökum á móti.. Og hvernig stendur á því að við veljum það að einhverjir einstaklingar verða utangarðs í samfélaginu okkar?

Eins og við höfum svo oft heyrt áður þá umgekkst Jesús fólk án þess að velta því nokkuð fyrir sér hver viðkomandi er eða hvaðan hann kemur. Honum er alveg sama um uppruna eða stöðu. Það eina sem hann sér er manneskjan og trú hennar. Hann mætir fólki á þeim stað sem það er á hverjum tíma fyrir sig, hann hvetur og byggir upp með jákvæðum hætti. Hann læknar og gefur von.

Á íslandi í dag er mikil umræða um innflytjendur og flóttamenn, fordómar eru miklir gangvart fólki frá löndum sem við þekkjum lítið til, fordómar sem birtast í framkomu okkar gagnvart flóttamönnum sem flestir eru staddir hér á landi vegna þess að þeir eiga ekki í önnur hús að venda, þeir eru beinlínis í lífshættu heima fyrir. Flóttamenn eiga víða skjólstað í kirkjum, hér á landi er kirkjan með sérstakan prest innflytjenda sem sjálfur er innflytjandi og sinnir þessum málaflokki af mikilli ósérhlýfni og kostgæfni. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að eiga bænastundir með flóttafólki og innflytjendum í kirkjunni minni. Góðu fólki sem sumt hefur verið á flótta undan mikilli ógn svo árum skiptir, sum þeirra hafa jafnvel aldrei kynnst öðru lífi en lífi flóttamannsins, lífi þess sem hvergi á aðsetur eða vísan næturstað, lífi þess sem nánast alltaf er til hliðar settur og jafnvel fyrirlitinn í því samfélagi sem dvalið er í á hverjum tíma tíma fyrir sig. Ég get leyft mér að fullyrða að þessir einstaklingar og þær fjölskyldur sem búa hér á Íslandi hafa þurft að reyna hluti í lífinu sem okkur hér á landi órar ekki fyrir. Ég hef fengið að kynnast góðu fólki á kirkjulegum vettvangi og þá fyrst og fremst á bænastundum og samverum, ég hef þannig kynnst fólki sem er þakklátt fyrir það sem það hefur þó lítið sé og tekur því sem að höndum ber með æðruleysi og trausti til Guðs.

Í fyrri texta dagsins er sérstaklega rætt um munaðarleysingjann, ekkjuna og aðkomumanninn, þetta fólk sem var utangátta í samfélaginu, fólk sem enginn vildi vita af, fólk sem þjáðist vegna fordóma og þekkingarleysis annarra. Jesús tók stöðu með þessu fólki, rétt eins og hann gerði gegn valdboðum ef þau voru á skjön við sannfæringu hans og kærleiksboðskap. Við getum eflaust flest verið sammála um að bæta mætti verulega hag þeirra sem minnst hafa í samfélaginu, þetta viðhorf gagnvart ekkjum og munaðarleysingjum sem talað er um í Gamla testamentinu á kannski ekki lengur við í okkar samfélagi. En því miður þá er ekki sömu sögu að segja af til dæmis öryrkjum og öldruðum í sem eiga gjarna erfitt uppdráttar, þeir eru oft í fjárags- og húsnæðisvandræðum og eiga erfitt með að koma sér fyrir í samfélaginu.  Í textanum er líka talað um guðsótta en líkast til er þar átt við að þeir sem eru á einhvern hátt ranglátir í eigin garð eða annarra ættu að óttast Guð.

Páll postuli leggur til að við komum vel fram við hvert annað og að við leggjum ástund á það sem fagurt er, hann leggur líka til að við sigrum illt með góðu. Jesús Kristur færir okkur frelsi og með því að treysta honum og vera tilbúinn til að leggja okkar mál í hans hendur og fylgja því sem hann kennir okkur. Ef við förum þann veg að umgangast alla með sama hætti, hvorki setjum okkur á stall gagnvart öðrum né setjum aðra á stall gagnvart okkur sjálfum, þá þurfum við ekkert að óttast.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.

Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.

Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“
Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“
Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“
Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.