Í dag er sjómannadagur, ég dáist að þrautsegju þess fólks sem stundar sjómennsku, það getur ekki verið létt að vera lengi fjarverandi frá fjölskyldu og vinum. Á sjó geta alls kyns válegir atburðir gerst, það geta skollið á verstu veður og það er örugglega skelfileg reynsla að flækjast í veiðarfæri og fara útbýrðis. Þrúgandi kalt og kæfandi hafið skilar helst ekki fangi sínu til baka. Menn þurfa að berjast fyrir lífinu hverja einustu sekúndu sem hafið heldur þeim i greipum sínum. Þegar menn komast upp á yfirborðið eftir að hafa farið á kaf í kaldan sjóinn kalla þeir yfirleitt allir á þann sama í örvæntingu sinni. Og hvernig skyldi kallið hljóma? Guð! Elsku Guð, hjálpaðu mér , ég skal aldrei aftur… Kannast einhver hér við þetta. Á örvæntingarstund þá leitum við Guðs. Elsku besti Guð, elsku góði Guð. Ég skal aldrei aftur eða ég skal alltaf.. á hverjum degi …. Þannig leitum við um stundarsakir til hans en eftir að hjálpin berst erum við fljót að gleyma og ráfum úr öryggi þess sem öllu stýrir.

Hugsið ykkur hvað það er stórkostleg tilhugsun að einhver skuli gæta okkar sem hér erum frá fæðingu og út fyrir gröf og dauða. Jesú sér til þess að við fáum næringu og hvíldarstað. Það er eðlilegt að efast um trú sína og missa samband við Guð sinn af og til. Þá er gott að rifja upp söguna af sjómönnunum sem fara fyrir borð og bjargast aðeins fyrir óútskýranlega náð. Við sem erum skírð í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda erum merkt honum sem er með okkur alla daga og leiðarljósið er að lifa kærleiksríku lífi, að tileinka sér það að koma fram við náungann eins og sjálfan sig.

Við áköllum Guð hvorutveggja í þakklæti og neyð, og Guð talar til okkar í öllum kringumstæðum. Hann getur hvíslað til okkar í grasinu, í mjúka vorblænum eða með þýðum söng fuglanna. Við heyrum sjaldnast orð Jesú sem drynjandi röddu af himni ofan heldur miklu frekar í kirkjunni eða jafnvel í þögninni. Það er gott að hlusta í þögn, það er sérstakt en gott og alveg furðulegt hvað hægt er að heyra mikið þegar enginn segir neitt. Það er gott að vita að einmitt þá er Faðirinn að tala við börnin sín.

Séra Fritz Már Jörgensson

Lofgjörðarlag vikunnar er lagið Þakklæti eftir Magnús Kjartansson flutt af Vox Felix: https://www.youtube.com/watch?v=W_lFhEDlBWI&t=137s

Öll speki er frá Drottni,
hjá honum er hún að eilífu.
Hver fær talið sandkorn á sjávarströnd,
dropa regns eða daga eilífðar?
Hver fær kannað hæð himins, víðáttu jarðar,
undirdjúpin eða spekina?
Fyrri öllu var spekin sköpuð,
frá eilífð voru skilningur og hyggindi.
Orð Guðs í upphæðum er lind spekinnar,
eilíf boð hans vegir hennar. [
Hverjum opinberaðist upphaf spekinnar?
Hver komst fyrir hulin rök hennar?
Hverjum opinberaðist þekking á spekinni
og hver hlaut skilning á allri reynslu hennar? [
Drottinn einn er spakur, ógurlegur mjög,
situr í hásæti sínu.
Hann er sá sem spekina skóp,
leit á hana og virti vel
og veitti henni yfir öll sín verk.
Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans,
hann veitir þeim sem elska hann ríkulega af henni.

En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.
Jósef, Levíti frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunarsonur, átti sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.

Þér rannsakið ritningarnar því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær sem vitna um mig en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
Ég þigg ekki heiður af mönnum en ég þekki yður, ég veit að þér hafið ekki í yður kærleika til Guðs. Ég er kominn í nafni föður míns og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni tækjuð þér við honum. Hvernig getið þér trúað þegar þér þiggið heiður hver af öðrum en leitið ekki þess heiðurs sem er frá einum Guði? Ætlið eigi að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður er Móse og á hann vonið þér. Ef þér tryðuð Móse munduð þér líka trúa mér því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?“