„Svo segir Drottinn:  Nemið staðar við vegina og litist um, spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin og farið hana svo að þér finnið sálum yðar hvíld.“  Spádómsbók Jeremía 6.16

Mörg eru skrefin sem við tökum um allan ársins hring. Það er hollt hverjum og einum að hugsa til þeirra skrefa sem hver nýr dagur gefur og hvetja sjálfa sig og aðra til að vanda sig. Skref sem tekið er í hugsunarleysi getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ef við fengjum að sjá í kvikmynd öll þau skref sem við höfum stigið á lífsleiðinni þá gætu þau rakið sögu okkar. Sögu frá því við vorum ung og allt til þessa dags. Sögu þar sem ekkert væri undandregið – allt lagt fram. Mundum við treysta okkur til að sjá þá kvikmynd?
Hvert skref segir hvar við erum hverju sinni á lífsleiðinni. Hvort við höfum gengið um gömlu göturnar og fundið hamingjuleiðina eða arkað nýjar leiðir án þess að skoða hvert þær leiða okkur. Skrefin segja líka hvert hugur okkar og vilji stefna. Gæfuspor ilma og þau veita ekki einasta þeim er þau stígur gæfu og yndi heldur einnig öðrum sem nær standa. Þau eru líka öðrum hvatning að ganga sömu braut. Grónar götur vísa gjarnan á staði þar sem við getum endurnært sál og líkama. Fundið frið.
Þegar manneskjan lærir að ganga kynnist hún fljótt því hvað er að detta. Við þekkjum það öll hvernig börnin taka sín fyrstu skref. Þau eru ekki burðug en í þeim býr kraftur þar sem uppgjöf er ekki að finna jafnvel þó þau detti hvað eftir annað, hrufli sig og meiði, og orgi hátt. Það er eins og allt eigi að minna mennina á að fara varlega og vanda hvert skref sem stigið er annars kann illa að fara.
Óstigin skref toga manneskjuna áfram og svo er að sjá sem ekkert aftri henni að hefja göngu sína – lífsins göngu. Hér gildir eins og í svo mörgu öðru að hver maður hafi gát á sjálfum sér og hafi vit fyrir þeim sem eru að taka sín fyrstu skref út í lífið. Mörg eru gæfusporin sem við höfum stigið á lífsleiðinni – þeim má alls ekki gleyma þó að menn beri ör og eymsl eftir fall og stirða göngu á ýmsum skeiðum lífsins. Það er nefnilega mikilvægt að kunna fótum sínum forráð.

Allir menn þekkja skilsmun gæfu og ógæfu. Okkur eru ljósar margar hættur lífsins og sneiðum hjá þeim eftir megni. Stundum er svo að sjá sem hættur lífsins laði okkur til sín – við viljum sýna og sanna hvað í okkur býr og teljum það kost að óttast ekkert í lífinu – viljum reyna allt. En heilbrigður ótti getur verið góður kennari og bjargar mörgum. Sá eða sú sem anar áfram út í lífið og óttast ekkert stígur fljótt í ógæfufen.
Einhvers staðar í kvikmynd hvers og eins sem lífið er má sjá hvar við erum stödd í ógæfufeni. Þá er gott að horfa á skrefin sem leiddu okkur þangað og spyrja hvort eitthvað megi af þeim læra. Hver dagur er hentugur tími til að skoða öll þessi skref og varast pytti og fúafen lífsins.
Kristin trú er leið sem bendir á gæfuspor og sýnir hvar má taka mjúk og hógvær skref á lífsins vegi. Vísar okkur á gamlar götur sem eru margreyndar af fyrri kynslóðum og hafa orðið mörgum hamingjuleið. Spor okkar geta legið á þeim vegi og öðrum. Við finnum muninn á þeim. En sporin okkar öll safnast að lokum saman á einn stað þar sem lífið nemur staðar hér í heimi.
Fótatak okkar þagnar og skrefatalningu okkar lýkur – lýkur þar sem lífsins vegur er genginn á enda. Hvað þá? Ekki verður snúið við og ný ganga hafin hér í heimi heldur bíður okkar ganga til lífsins hjá þeim er kallaði það fram í árdaga. Skref fyrir skref göngum við mót þessu lífi sem við hrærumst í og því komandi. Mót lífinu sem okkur er gefið. Lífinu sem geymir öll þess skref sem við tókum hér í heimi og við féllum oft en stóðum líka upp og horfðum fram á við því við gátum ekki annað. Já, mót lífinu sem geymir öll ógengin skref.
Skapari lífsins vill horfa með okkur fram til lífsins og vísa okkur leið til gæfu á öllum tímum. Líka núna.

Hreinn S. Hákonarson, fangaprestur þjóðkirkjunnar

Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“  Drottinn svaraði: „Auglit mitt mun fara með þér og ég mun veita þér hvíld.“

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða. Villist ekki, elskuð systkin.Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.

Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.