Jesús segir okkur sögur af fólki í ólíkri stöðu og mismunandi hltuverkum. Hann segir af fólki með misjafnan grunn, frá ungum og gömlum, konum og mönnum. Samfélag ólíks fólks með ólíkar vonir og væntingar í lífinu.

Það má skilja kennslu Jesú þannig að allir eigi sinn stað og geti unnið sitt. Enginn er vanhæfur og enginn er of lítill eða ómerkilegur eða gamall eða veikur í augum hans, allir eru jafnir. Enda nóg til af hlutverkum fyrir alla. Og öll hlutverkin eru jafnmikilvæg þegar upp er staðið.

Verkefnin eru misjöfn en stundum geta þau verið erfið og þá þarf fólk að endurskoða það sem fengist er við. Stundum finnst mér ég sjá á fólki að það sé að vinna verk sem það gefur Guði. Fólk, hjúkrar, kennir, eldar, smíðar og hugsar um aðra og Guð blessar allt. Ekkert verk er of lítið og ekkert er ómerkilegt.

Við vitum ekki hvaða byrðar manneskjan við hliðina á okkur ber. Við vitum ekki hvað það er sem fólkið í kirngum okkur þarf að fást við jafnhliða lífinu sem við sjáum. Vitum ekki um veikindi eða erfiðleika nágranna okkar.

Ég trúi því að Jesú vilji stöðva ranglæti, og það á örugglega við þegar við mannfólkið erum búin að ákveða að einhver ein manneskja sé merkilegri en önnur eða tilheyri frekar, eða eigi að hafa það betra en einhver annar. Og hann setti það skýrt fram að allir hefðu jafnt virði. Jesús kenndi okkur að virði okkar getur ekki mælst af því hvað við gerum, hann kenndi okkur líka að við erum öll elskuð Guðs börn. Guð blessi ykkur komandi viku

Séra Fritz Már Jörgensson

Lofgjörðarlag vikunnar er með Chris Tomlin – Is He Worthy. Í textanum er spurt hvort við þekkjum hvefulleika veraldarinnir, hvort við þekkjum skuggahliðarnar en síðan kemur fram að við vitum auðvitað að ljósið sigrar alltaf myrkrið. https://www.youtube.com/watch?v=FkRiYsTN7KY

Þetta er það sem ykkur ber að gera:
Segið sannleikann hver við annan
og fellið dóma af sanngirni
og velvilja í hliðum yðar.
Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu
og fellið yður ekki við meinsæri.
Allt slíkt hata ég,
segir Drottinn.

En þið eruð ekki á hennar valdi heldur andans sem í ykkur býr. En sá sem hefur ekki anda Krists er ekki hans. Ef Kristur er í ykkur er líkaminn að sönnu dauður því að syndin er dauð en andinn er líf sakir sýknunar Guðs. Ef andi hans sem vakti Jesú frá dauðum býr í ykkur þá mun hann sem vakti Krist frá dauðum einnig lífga dauðlega líkami ykkar með anda sínum sem í ykkur býr.

„Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert. Hverjum sem er ekki í mér verður varpað út eins og greinunum og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það. Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir.