Þegar ég var lítil stúlka átti ég þá ósk heitasta að eignast töfrasprota. Pabbi, sem þurfti að fara reglulega til útlanda vegna vinnu sinnar, færði okkur börnunum iðulega eitthvað fallegt þegar hann kom heim. Í hvert sinn þrábað ég hann að kaupa handa mér töfrasprota. Hann kom aldrei en ýmislegt annað fallegt fékk ég. Risastóra dúkkan sem pabbi keypti eitt sinn handa mér, sem var með hár sem mátti bæði greiða og þvo, er mér enn í fersku minni. Hún var svo stór og raunveruleg að það var eins og að fá lifandi barn í fangið. Ég var að vonum hæstánægð og sinnti hlutverki mínu af alúð og festu sem ung móðir. En draumurinn um töfrasprotann lét mig ekki í friði og ég fullvissaði pabba um að það myndi auðvelda líf hans að þurfa aldrei að hafa áhyggjur af því meir hvað hann ætti að gefa mér. Töfrasprotinn sæi alfarið um það. En ég ein vissi að það sem töfrasprotanum var ætlað að gera var að skapa mér nýjan, fallegan heim þar sem allir væru glaðir og góðir. – Þannig var hugarheimur lítils barns.

Jólin bera með sér slíka töfra. Fyrir börnin er lífið aldrei jafn nálægt því að vera fullkomið og á jólum, á þessum tíma þegar hughrif og tilfinningar eru allsráðandi. Gleðin skein úr augum barnanna sem mætt voru með foreldrum sínum til kirkju á annan dag jóla. Þau höfðu fengið óskir sínar uppfylltar við jólatréð. Einn fermingardrengur fékk símann sem hann hafði lengi langað í og lítill snáði fékk tölvuleikinn sem var efstur á hans óskalista.  Sá var duglegur að segja „Amen” með prestinum, því hann var svo þakklátur.

Þar sem ég stóð í predikunarstólnum og var litið yfir kirkjuna sá ég skyndilega ekkert annað en tindrandi stjörnur sem lýstu allt upp og skinu úr augum barnanna. Og í einni svipan varð ég aftur þessi litla stúlka sem á sínum tíma hafði þráð að fá þá einu gjöf sem breytt gæti lífi mínu. Með árunum varð mér það ljósara að þetta er ekki bara draumsýn lítils barns, heldur vonir og væntingar okkar allra. Hvort sem við erum ung eða gömul. Að fá að upplifa töfra lífsins. Það er gott að geta tekið á móti lífinu eins og barn því þar búa hinir stóru draumar um fullkominn heim.

Sagði ekki Jesús: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.

Í lok ársins fengum við að heyra þegar hið unga og aldna mættist í helgidóminum forðum. Ung móðir bar nýfæddan son sinn þangað til að þakka Guði hina stóru gjöf.  Á sama tíma var þar Símeon hinn gamli sem fékk loks sína hinstu ósk uppfyllta. Það var að líta frelsarann augum svo hann gæti kvatt sáttur. Annar var með allt að baki, hinn með allt framundan. Símeon gamli og Jesús gætu táknað árin tvö sem mættust eitt andartak, annað til að kveðja, hitt til að heilsa. Gamla árið er horfið, með því kom lítið eitt af von og dálítið af draumum. En árið fór með allt sitt. Mögulega voru  einhverjir sem upplifðu brostnar vonir og væntingar sem upplifa nú léttinn yfir því að gamla árið sé farið veg allrar veraldar. En það er gott að ganga sáttur inn í nýtt ár. Í dag er þrettándinn, sem er síðasti dagur jóla. Þá verðum við aftur fullorðin og alvaran tekur nú við. Margir fara á brennur í kvöld og þá er ágætt að nota tækifærið og kasta á eldinn öllu því sem er íþyngjandi fyrir líf okkar. Það léttir okkur för.

Framhaldið er undir okkur sjálfum komið, að opna fyrir þær breytingar sem við viljum fá og sjá í lífi okkar á nýju ári. Hvar og hvernig sem leið þín liggur, ef það er óskin þín, þá ferð þú í friði inn í nýtt ár.

Sr. Anna Eiríksdóttir

Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur
og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.
Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
Þjóðir munu stefna á ljós þitt
og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér.
Hef upp augu þín og litast um,
þeir safnast allir saman og koma til þín,
synir þínir koma langt að
og dætur þínar verða bornar á örmum.
Við þá sýn muntu gleðjast,
hjarta þitt mun slá hraðar og fyllast fögnuði
því að til þín hverfur auður hafsins
og auðæfi þjóða berast þér.
Aragrúi úlfalda mun þekja land þitt,
drómedarar frá Midían og Efa
og allir, sem koma frá Saba,
færa þér gull og reykelsi
og flytja Drottni lof.

Víst hafið þið heyrt um þá náð sem Guð hefur sýnt mér og um það hlutverk sem hann hefur falið mér hjá ykkur: Með opinberun birtist mér leyndardómurinn. Hann var ekki birtur mannanna börnum fyrr á tímum. Nú hefur Guð látið andann opinbera hann heilögum postulum sínum og spámönnum: Vegna samfélagsins við Krist Jesú og með því að hlýða á fagnaðarerindið eru heiðingjarnir orðnir erfingjar með okkur, einn líkami með okkur, og eiga hlut í sama fyrirheiti og við.

Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“