Nú styttist sumarið í annan endann. Þessi yndislegi tími bjartra nátta, fallegra daga og betra veðurs, sólin hefur leikið við okkur hér á suðvesturhorninu og Íslendingar hafa þeyst um landið þvert og endilangt enda ekki í boði að fara í utanlandsferðir eftir Covid-19 faraldurinn sem geysað hefur um heimsbyggðina. Nú er verslunarmannahelgi og þá styttist í að allt byrji að nýju. Skólar eru farnir að undirbúa komu nemenda, nemendur farnir að hlakka til að hitta bekkjarfélaga og vini og flestir farnir að búa sig andlega undir dimmar nætur, haust og síðan vetur.

En svo mun það gerast án nokkurs fyrirvara að við fáum hlýja sólríka daga sem leika við okkur rétt eins og sumarið hafi aldrei farið. Við gleymum því jafnvel að það hafi orðið dimmt og kalt. Nú hefur Covid-19 tekið sig upp að nýju hér á Íslandi. Við erum aftur komin í baráttu og varnarhug. Þurfum að fara varlega í umgengni við annað fólk. Tökumst ekki í hendur, föðmust ekki eða knúsumst. En það er allt í lagi, við getum bara brosað í staðinn enda vita allir að fallegt bros er ekkert síðra en gott knús.

Það styttist í haustið, og við vitum af því sem kemur í kjölfarið þekkjum árstíðirnar hverja af annarri og fögnum þeim hverri með sinn sjarma. Það er enn tækifæri til að vera úti langa daga og björt kvöld. Og við erum flest stödd þar að við njótum daganna, njótum sólarinnar og þess að vera úti að leika. Nýtum okkur sumarið eins lengi og mögulegt er, jafnvel aðeins fram á haust.

Rétt eins og þegar við erum með góðu fólki sem er gott að vera með, það getur stundum dregist úr hófi að standa upp og kveðja. Eða þegar fólk er staðið upp, komið í skóna, og stoppar við dyrnar af því það gleymdist að segja eitthvað.

Oft mætum við Jesú einmitt á slíkum stað þar sem er erfitt að kveðja, rétt eins og það verður erfitt að kveðja sumarið.

Og nú þegar Covid-19 er aftur á ferli þá skulum við muna orð Jesú þegar hann kennir okkur að hugsa um hvert annað. Að setja annað fólk í forvígi. Tökum ábyrgð á okkur sjálf, hvert og eitt.

Þetta getum við gert með því að sýna náunganum kærleik og með því að vera fyrirhyggjusöm í baráttunni við Covid-19, munum að það eru ekki endilega sjálf sem þurfum að óttast, en það gæti verið náunginn sem þarf þess. Það getur verið að manneskjan fyrir aftan okkur í röðinni sé með undirliggjandi sjúkdóm sem gerir Covid lífshættulegan sjúkdóm fyrir hana.

Jesús kennir okkur að mæta öllum kringumstæðum í trú, von og kærleika. Og munum orðin hans, elskið hvert annað. Verið í mínum kærleika. Að lifa í kærleika, sérstaklega á viðsjárverðum tímum er merki um nærveru frelsarans. Verið í mínum kærleika og þá eruð þið með mér.

Séra Fritz Már Jörgensson

Svo segir Drottinn hersveitanna:
Hlustið ekki á orð spámannanna.
Þeir flytja yður boðskap
en þeir blekkja yður,
þeir flytja uppspunnar sýnir
og ekki af vörum Drottins.
Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins:
„Þér hljótið heill.“
Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir:
„Engin ógæfa kemur yfir yður.“
En hver hefur staðið í ráði Drottins,
séð hann og heyrt orð hans?
Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?
Sjá, stormur Drottins brýst fram,
hvirfilbylur steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.
Reiði Drottins slotar ekki
fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað
fyrirætlanir hjarta síns.
Síðar meir munuð þér skilja það.
Ég sendi ekki þessa spámenn,
samt hlaupa þeir,
ég talaði ekki til þeirra,
samt spá þeir.
Hefðu þeir verið í ráði mínu,
þá hefðu þeir boðað þjóð minni orð mín
og snúið henni frá villu síns vegar
og vondri breytni.

Þannig erum við, systkin,
í skuld, ekki við eigin hyggju
að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar
munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.