Sumri hallar

Það er ekki um að villast, það er komið haust. Mörg teikn eru á lofti um að vetur sé í aðsigi, risjóttara veðurfar, kaldari og styttri dagar. Haustdagskráin fyllir dagana, skóli, vinna og félagsstörf. Við kveðjum sumarið með eftirsjá, því sumarið er þessi dásamlegi þáttur í tilverunni sem gefur okkur frí og frelsistilfinningu og meiri möguleikum á samveru með fjölskyldu og vinum.

En haustið hefur einnig sín hughrif, kalt og tært loft og yndisleg stemmning. Það er eins og Skaparinn máli náttúruna upp á nýtt þegar ótrúleg blæbrigði lita koma í ljós í óendanlegum fjölbreytileika. Njótum vel þessa tíma, förum út í skóg og finnum stórfengleik hinnar fögru náttúru sem Guð gefur okkur.

 

Í tilveru sem hallar

Það er ekkert þráðbeint og augljóst í tilverunni. Hvaðan komum við, hver erum við og hvert er stefnt? Lífið er leyndardómur sem er stærri en við sjálf. Svörin við spurningum um tilgang og markmið lífsins verður ekki svarað öðruvísi en með trú og lífsviðhorfi þar sem fjölbreytnin er að vonum mikil.

Við búum á plánetu sem hallar um 23° og þannig snýst jörðin um öxul sinn í kringum sólina. Þessi halli jarðarinnar gefur okkur árstíðirnar, án þessa halla væri enginn munur á sumri, vetri, vori og hausti. Aðeins lítil breyting á halla jarðar myndi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir lífið á jörðinni.

 

Höllum okkur að hvort öðru

Ofangreindur halli jarðar er lífríkinu nauðsynlegur og það vekur þau hugrenningatengsl að í mannlífinu er halli líka nauðsynlegur. Þegar við höllum okkur að hvort öðru finnum við að kærleikurinn er eitt af því sem skiptir mestu máli í lífinu. Þegar við höllum okkur að Guði, fáum við samhengi fyrir kraftaverkið. Að jörðin er ekki auð og tóm, eins og allar aðrar plánetur í óravíddum himingeimsins. Það gefur okkur tilefni til að þakka fyrir lífið, náttúruna og okkar persónulegu tilveru í henni. Þegar við höllum okkur að Jesú Kristi finnum við frásögur sem gefa okkur viðmið í lífinu. Orð hans, verk og upprisa sannfæra okkur um að trú, von og kærleikur eru þau gildi sem sigra að lokum.

 

Það er sérstaða mannsins umfram aðrar lífverur að glíma við lífsviðhorf og spurningar í tilveru sem hallar og er leyndardómsfull. Stundum kynnum við að óska þess að allt lægi betur í augum uppi. En þannig er lífið ekki og við getum huggað okkur við það að glíman sjálf er vegur til þroska. Þegar við höllum okkur að hvort öðru og Guði verður lífið bjartara og tilveran elskulegri.

 

 

 

Sr. Ágúst Einarsson

Prestur Íslendinga í Svíþjóð

Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði,
þjóðin sem hann valdi sér til eignar.
Drottinn lítur niður af himni,
sér öll mannanna börn.
Frá hásæti sínu virðir hann fyrir sér
alla jarðarbúa,
hann sem skapaði hjörtu þeirra allra
og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns,
eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
Svikull er víghestur til sigurs,
með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
En augu Drottins vaka yfir þeim sem óttast hann,
þeim er vona á miskunn hans.
Hann frelsar þá frá dauða,
heldur lífinu í þeim í hungursneyð.
Vér vonum á Drottin,
hann er hjálp vor og skjöldur.
Yfir honum fagnar hjarta vort,
hans heilaga nafni treystum vér.
Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss
því að vér vonum á þig.

Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: „Fylg þú mér!“ Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. Filippus fann Natanael og sagði við hann: „Við höfum fundið þann sem Móse skrifar um í lögmálinu og einnig spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“
Natanael sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“
Filippus svaraði: „Kom þú og sjá.“
Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“ Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“
Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu áður en Filippus kallaði á þig.“
Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“
Jesús spyr hann: „Trúir þú af því að ég sagði við þig: Ég sá þig undir fíkjutrénu? Þú munt sjá það sem þessu er meira.“ Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“

Nú er ég glaður í þjáningum mínum ykkar vegna og uppfylli með þjáningum líkama míns það sem enn vantar á þjáningar Krists til heilla fyrir líkama hans, kirkjuna. Hennar þjónn er ég orðinn og hef það hlutverk að boða Guðs orð óskorað, leyndardóminn sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða en hefur nú verið opinberaður Guðs heilögu. Guð vildi opinbera þeim hvílíkan dýrðarríkdóm heiðnar þjóðir eiga í þessum leyndardómi sem er Kristur meðal ykkar, von dýrðarinnar.
Hann boða ég, áminni og fræði hvern mann með allri speki að ég megi leiða alla fram fullkomna í Kristi. Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti sem Kristur lætur kröftuglega verka í mér.