Syndin mætir til leiks

 

Óhlýðni mannsins 1. Mósebók 3:1-13

Höggormurinn var slóttugri en öll dýr merkurinnar sem Drottinn Guð hafði gert. Hann sagði við konuna: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“

Konan svaraði höggorminum: „Við megum eta af ávöxtum trjánna í aldingarðinum en um ávöxt trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, sagði Guð: Af honum megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.“ Þá sagði höggormurinn við konuna: „Sannið til, þið munuð ekki deyja. En Guð veit að um leið og þið etið af honum ljúkast augu ykkar upp og þið verðið eins og Guð og skynjið gott og illt.“

Þá sá konan að tréð var gott af að eta, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Hún tók af ávexti þess og át og gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja og þeim varð ljóst að þau voru nakin. Þau saumuðu því saman fíkjuviðarblöð og gerðu sér mittisskýlur.

Þá heyrðu þau til Drottins Guðs sem gekk um í aldingarðinum í kvöldsvalanum og maðurinn og kona hans földu sig fyrir augliti Drottins milli trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: „Hvar ertu?“ Og hann svaraði: „Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur því að ég er nakinn, og ég faldi mig.“ Hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Hefur þú etið af trénu sem ég bannaði þér að eta af?“ Maðurinn mælti: „Konan sem þú hefur sett mér við hlið, hún gaf mér af trénu og ég át.“ Þá sagði Drottinn Guð við konuna: „Hvað hefurðu gert?“ Konan svaraði: „Höggormurinn tældi mig og ég át.“

Þessa sögu þarf ekki nauðsynlega að taka sem raunverulega atburðarás, og hvort að þessir ákveðnu einstaklingar sem sagan fjallar um hafi endilega verið til er ekki það sem Biblían snýst um.  Sagan er að útskýra á frekar einfaldan hátt mjög flókið fyrirbæri.  Til gamans má geta þess að nafnið Adam merkir maður eða mannkyn og nafnið Eva merkir móðir eða sú sem gefur líf.  Líta má á þau skötuhjúin sem samnefnara fyrir mannkynið allt í samskiptum sínum við Guð.

Þessi magnaða saga sýnir okkur hvernig syndin kom í heiminn.  Guð hafði sett ákveðinn regluramma sem maðurinn skyldi fara eftir.  Mjög einfalt í raun og allir vinir.  En þá smokraði syndin sér inn í söguna í líki höggormsins og fór að rengja það sem Guð hafði sagt.  Hann tældi konuna til að óhlýðnast Guði.  Konan tældi síðan manninn til að gera slíkt hið sama.  Þegar þau höfðu gert þetta sáu þau allt í einu að þau voru nakin og földu sig.  Allt í einu fóru þau að skammast sín fyrir sig sjálf.  Þau áttuðu sig á því að þau höfðu snúið baki við Guði.  Þau höfðu vanvirt það sem hann hafði sagt.  Þau urðu hrædd og földu sig.  Þegar Guð svo bað um skýringu reyndi maðurinn að firra sig ábyrgð og kenndi konunni um.  Konan reyndi líka að firra sig ábyrgð og kenndi höggorminum um.  Svona er ein birtingarmynd syndarinnar.  Maðurinn snýr baki við Guði.  Hann hugsar bara um sjálfan sig og leitar fyrst og fremst síns eigin.

Synd er ekki bara það að gera eitthvað sem ekki má heldur er synd einskonar ástand sem maðurinn er í.  Með því að hlusta ekki á Guð er maðurinn búinn að loka á sambandið við hann.  Það er ekki Guð sem lokar, það er maðurinn.  Okkur hættir stundum til að flokka syndir og segja að þessi synd sé alvarlegri en hin osv.frv.  En því hafnar Guð.  Einnig bindum við syndir oft við einstakar gjörðir okkar í stað þess að líta á misgjörðir sem afleiðingu syndar, þess ástands að snúa baki við Guði og vilja Guðs.

Áhrifamáttur syndarinnar – Matteusarguðspjall 5:27-28

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér að einn lima þinna glatist en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.

Þetta eru stór orð.  En syndin nær til allra okkar hugsana.  Við sjáum þá hve vanmáttug við erum gagnvart syndinni.  Enginn getur sagt að hann sé syndlaus.  Í Rómverjabréfinu 6:23 stendur:  „Því að laun syndarinnar er dauði en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“

Dauðinn merkir ekki endilega líffræðilegan dauða heldur aðskilnað frá Guði. Syndin skilur okkur frá Guði og heldur gjánni opinni milli okkar og Guðs.  Það ástand getur skapast að við verðum það forhert gegn Guði að syndin stjórnar öllu okkar lífi.

En óttumst ekki.  Jesús Kristur kom í heiminn til að endurnýja samband okkar við Guð, frelsa okkur frá syndum okkar.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

 

 

Orð Drottins kom til mín:
Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig.
Áður en þú fæddist helgaði ég þig
og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar.
Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð.
Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“
Þá sagði Drottinn við mig:
„Segðu ekki: Ég er enn svo ungur.
Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig
og boða hvað eina sem ég fel þér.
Þú skalt ekki óttast þá
því að ég er með þér til að bjarga þér,“
segir Drottinn.
Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig:
„Hér með legg ég orð mín þér í munn.
Ég veiti þér vald
yfir þjóðum og ríkjum
til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna,
til að byggja upp og gróðursetja.“

Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í Ritningunni:
Sjá, ég set hornstein í Síon,
valinn og dýrmætan.
Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.
Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
orðinn að hyrningarsteini
og:
ásteytingarsteini og hrösunarhellu.
Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.
En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.

Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“

Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“

Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.