Í guðspjalli dagsins heyrum við frásögn Mattheusar af því þegar Jesús læknaði lamaðan mann. Í upphafi frásagnarinnar segir: Þegar Jesú sá trú þeirra sagði hann.. hugsið ykkur orðin og meininguna á bak við þau, þegar hann sá trú þeirra.. það þurfti ekki meira til að hann læknaði lamaðan mann en að hann skynjaði trú þeirra sem færðu manninn til hans, í því trausti að hann myndi lækna hann. Oft er talað um trú og traust í sömu andrá. Og kannski snýst þessi atburður einmitt um traust en þegar talað er um trú í víðum skilningi gæti það átt við að hafa eitthvað fyrir satt eða vona að eitthvað muni gerast.

Í veröldinni sem við lifum í getur veraldleg menning og markaðshyggja yfirtekið líf fólks, því trúi ég að nú sé meiri þörf fyrir boðskap Jesú Krists en nokkru sinni fyrr. Það eru svo margir sem eru lamaðir á einn eða annann hátt af því það er svo margt sem heftir fólk í lífinu. Freistingarnar eru allt í kringum okkur og stundum virðist auðveldara að falla í freistingu en að hafna henni. Það er oft auðveldara að ljúga en segja satt, auðveldara að vera óheiðarlegur. Það eru svo margir sem þurfa að heyra það að Jesús hafi fyrirgefið þeim syndir sínar. Heyra hann segja stattu upp taktu rekkju þína og farðu heim til þín.

Við hjónin upplifðum það að rekast á unga stúlku í erlendri stórborg sem hafði orðið fíkninni að bráð, hún var kornung, bjó á götunni og var háð heróíni. Blessuð stúlkan hafði það eins slæmt og slæmt getur orðið, kannski má segja að hún hafi lifað í helvíti að ákveðnu leiti. Við stöldruðum við hjá henni og spjölluðum við hana, á sama tíma stoppaði fólk og gaf sig á tal við hana, ungir krakkar sem voru rétt aðeins eldri en hún komu með poka sem í voru samlokur, gos og eitthvað smáræði annað. Það var mögnuð upplifun að sjá meðbræður stúlkunnar vera tilbúna til að liðsinna, gera allt sem hægt var til að hjálpa henni, hún vildi reyndar ekki raunverulega hjálp á þessum tíma en það er gott að vita til þess að hjálpin er þarna. Þarna var kristið samfélag í verki, náungakærleikur, og tilboð frá Jesú um að taka rekkju sína og fara heim. Stúlkan tók ekki tilboðinu á þessum tíma en tilboðið lifir og innst inni held ég hún viti að hún þarf ekki annað en rétta út hönd og þá stendur hjálp til boða.

Í kirkjunni viljum við svo gjarnan fá að benda á veginn hans, sem býðst til að líkna, lækna og veita þá huggun sem við þörfnumst, við getum nefnilega verið lömuð eða heft á svo ólíkan hátt. Við kynnumst Kristi og frásögnum um hann, hvernig hann svipti sig öllu til að þjóna okkur mönnunum, hvernig hann umgekkst alla jafnt og sinnti öllum með sama hætti. Við lærum að ganga veginn hans og með þá þekkingu í brjósti getum við haldið örugg út í lífið. Einhver sagði að Guð væri alltaf til staðar fyrir þá sem líða og þjást, hann réttir alltaf út höndina til þeirra sem trúa.

Hann sem segir: Statt upp og gakk eða: Syndir þínar eru þér fyrirgefnar. Niðurstaðan er sú sama. Við fáum mátt, von! Fyrirgefning Guðs gerir okkur nefnilega heil, læknar og líknar. Jesús reisir okkur upp jafnvel þó við séum lömuð. Þegar við göngum með Jesú fáum við tækifæri til að ganga áfram veginn og mæta því sem verður á vegi okkar með hans hjálp.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og heilögum Anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

Sr. Fritz Már Jörgensson

En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.