Ég sá barn bresta í grát um daginn, það hafði verið brotið á réttlætiskennd þess. Því sveið undan ósanngirni heimsins og það var allt ekta við svipinn á andlitinu.
Skjálfandi varir, tárin á einhvern hátt svo sjálfstæð að finna sér leið niður kinnarnar. Vonbrigðin ómuðu frá því. Það var svo fallegt og óþægilegt, algjörlega samhliða, og ég fann fyrir ást.
Það er eitthvað við hönnun okkar; grátur barnsins finnur sér leið að kviku okkar.
Á stundum held ég að við mætum því mörg hvernig þessi sönnu óþægindi geta orðið til þess að við viljum líta undan eða bæla niður. Það er svo auðvelt að upplifa að maður megni ekki að gefa grátnum rými, því hann opinberar eitthvað við lífið sem er svo ekta og stundum er svo stutt í okkur að vanmeta hvað hjörtu okkar eru rúmgóð þegar allt kemur til alls.
Kannski er það því við finnum fyrir ástinni – og vitum að allar þær sorgir sem við eigum og munum eiga finna uppsprettu sína í henni. Kannski er það sú staðreynd sem okkur getur þótt erfitt að bera áfram.

“Grief is praying. There are so few mourners left in this world. But grief is the discipline of the heart that sees the sin of the world, and knows itself to be the sorrowful price of freedom without which love cannot bloom. I am beginning to see that much of praying is grieving.”
Þessi orð skrifaði Henri Nouwen í bók sinni The Return of the Prodigal Son.

Ég hitti manneskju í vikunni, hún sagði mér að hún hefði varið mestum deginum í að gráta. Henni fannst það erfitt en hún var þakklát fyrir það. Fyrir henni var gráturinn þann daginn dýrmætt skref og hún fann sig fyllilega viðstadda eigið líf; hvorki að líta undan, né að bæla niður.

Í guðspjalli þessa sunnudags grætur Kristur yfir borginni. Textinn hefur spádómsgildi, horfir til falls Jerúsalem árið 70. Allir textar þessa dags segja af því að finna til og láta sig samfélög og líf mannfólksins varða.

Druslugangan í ár er rafræn og pistill Ingu Hrannar Sigrúnardóttur, Tilveruréttur minn, er áhrifamikill lestur en í pistlinum deilir Inga Hrönn á óeigingjarnan hátt svo við fáum heyrt hennar grátur, hennar styrk, og í gegnum orðin skín þessi hljóðláta reisn sem verður aldrei frá fólki tekin.
(sjá: https://flora-utgafa.is/7-utgafa/tilverurettur/?fbclid=IwAR28qtorcDDexXzcRBpwHrXMhS2xsaSdMjSM0v-tyFhU1TzG2-Ty097o4A4)

Kristur horfir yfir borgina og grætur. Hve mörg börn í þessari borg skyldu lifa í þeirri neyð að þurfa að deyfa, bæla, líta undan; til að komast af?
Hve mörg þeirra finna til undan skilningsleysi samfélags sem óttast að þekkja og kannast við sjálft sig til fulls?

Spámaðurinn Jeremía var leiddur til leirkerasmiðsins sem gafst ekki upp í viðleitni sinni.
Í hjarta Guðs er þrá eftir að halda áfram að móta hjörtu okkar.
En mér virðist sem Guð þrái eins þátttöku okkar; að við mótum í samstarfi við alheimsandann sem allt hefur bundið böndum. Með höndum okkar, hjörtum og huga.
Og, þegar stundin kallar eftir því, með tárum okkar, óþægilegum og fallegum.

Séra Hjalti Jón Sverrisson

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín.
Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best.
Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.
Stundum hóta ég einhverri þjóð eða konungsríki að uppræta það, brjóta það niður eða eyða því. En hverfi þessi þjóð, sem ég hef hótað, frá illri breytni sinni iðrast ég þeirrar ógæfu sem ég hafði ákveðið að senda yfir hana.
Stundum heiti ég einhverri þjóð eða konungsríki að endurreisa það eða gróðursetja en geri hún það sem illt er í augum mínum án þess að hlýða boðum mínum iðrast ég hins góða sem ég hafði heitið að gera henni.

Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana,
löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.

Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“

Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús
en þér hafið gert það að ræningjabæli.“
Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.