Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag er sérstakur dagur, skírnardagur og við ætlum að njóta saman altarissakramentisins, við ætlum að minnast Jesú. Á skírdagskvöldi var leiðin á enda, langt ferðalag, gjöfult jafnt sem erfitt hafði runnið sitt skeið, svikarinn hafði undirbúið sitt og Jesús vissi hvað beið hans. Jesús vissi að hann yrði svikinn og hann vissi hver svikarinn var, hann var samt sem áður tilbúinn til að veita honum sömu þjónustu og hann veitti hinum lærisveinunum. Jesús vissi vel að hann bauð lærisveinum sínum til hinnar síðustu máltíðar. Svikarinn hafði ofið vef sinn og undankomu var ekki auðið.
Þrautagangan beið handan við hornið, einhver sú mesta píslarganga sem hægt er að hugsa sér. Jesús vék sér ekki undan örlögunum sem honum höfðu verið búin. Hann var svikinn þessa nótt og hann bauð lærisveinum sínum að minnast sín um alla tíð með því að endurtaka á táknrænan hátt þessa síðustu kvöldmáltíð. Kvöldmáltíðin sem framreidd var á skírdagskvöldi fyrir rétt um tvö þúsund árum síðan verður endurtekin um allan heim bæði í dag og í kvöld. En þannig fylgjum við kristið fólk boðum Jesú.

Júdas Ískaríot hafði svikið með fulltingi djöfulsins og fengið greitt silfur fyrir vikið. Hermennirnir biðu á næsta leyti eftir því að taka Jesú höndum. Allt þetta vissi Jesús en hann vissi líka hver hann var og hvert hlutverk hans var.
Þrátt fyrir alla brestina sem menn hans höfðu, elskaði hann þá án nokkurra skilyrða. Hann stóð upp frá miðri máltíð og hóf að þvo fætur lærisveinanna. Pétur vildi ekki að Drottinn þvæði fætur sína – honum fannst að Jesús ætti ekki að sinna slíku. Það var venja að þvo fætur manna í austurlöndum á þessum tíma enda voru þeir iðulega berfættir í sandölum og því skítugir. Jesús var ekki að sinna verki sem var honum ósamboðið eins og Pétur upplifði. Jesús var að gera það sem hann hafði alltaf gert, hann var að umgangast sitt fólk sem jafningja og með þeirri auðmýkt og elsku sem hann sýndi svo gjarna. Eftir þvottinn útskýrði Jesús fyrir lærisveinunum hvað hann hafði gert fyrir þá, hann sagði þeim að hann sjálfur, herra þeirra og meistari, Drottinn, eins og þeir kölluðu hann hefði þvegið þeim um fæturna og þannig gefið þeim fordæmi um það hvernig þeir sjálfir ættu að breyta í lífinu.

Hugsanlega var Jesús að leggja áherslu á skírnina, þannig að þeir væru að öllu hreinir er þeir tækju við því mikla starfi sem hann hafði ætlaði þeim eftir dauða sinn. Hann sýndi auðmýkt, kærleika og elsku til allra, líka til þeirra sem hann vissi að myndu ýmist svíkja hann eða afneita honum!
Þjónustuhlutverk Jesú var og er skýrt sem vekur okkur til umhugsunar um það hvernig við sem lifum í samfélagi sem mótað er af kristinni trú getum gert annað en sinnt meðbræðrum okkar. Jesús var afgerandi þegar hann sagði við Pétur að hann ætti ekki samleið með sér ef hann myndi ekki þiggja þvottinn.

Erum við tilbúin til að standa við það sem okkur er boðið, erum við tilbúin til að velja hið góða fram yfir hið illa. Viljum við ganga þann veg sem krefst þess að gefa gjafir sem krefjast þess af okkur að við tökum ábyrgð og leggjum til samfélagsins eins og Jesús bauð okkur að gera með útskýringu sinni á fótaþvottinum. Að meta hvert annað til jafns.

Í dag minnumst við bæði endaloka og upphafs. Kvöldmáltíðin sem Jesús átti með lærisveinum sínum í loftsalnum fallega í Jerúsalem er upphaf erfiðleika og þjáningar sem við getum varla gert okkur í hugarlund. Einmanaleiki, pyntingar, höfnun og kvalir er það sem blasti við Jesú Kristi þar til hann var leystur í dauða sínum. En við vitum að upphafið felst í upprisunni sem verður í kjölfarið með öllum þeim fyrirheitum sem við kristnir þekkjum svo vel. Þannig fullkomnast fagnaðarerindið sem okkur er flutt. Fagnaðarerindið sem  er að finna í  orðum og gjörðum Jesú Krists.

Það er því tími til að fagna á sama tíma og við göngum til heilagrar máltíðar með frelsara vorum. Borðum brauð og drekkum af bikarnum í minningu hans og viðhöldum þannig samfélagi kristinna manna. Fögnum hinum nýja sáttmála í gleði með Drottni sem gaf okkur, jörðina og allt sem á henni er, hann sem veitir okkur náð og eilíft líf fyrir trúna á hann.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Sr. Díana Ósk Óskarsdóttir og Sr. Fritz Már Jörgensson

Hvað á ég að gjalda Drottni
fyrir allar velgjörðir hans við mig?
Ég lyfti bikar hjálpræðisins
og ákalla nafn Drottins.
Ég greiði Drottni heit mín
og það í augsýn alls lýðs hans.
Dýr er í augum Drottins
dauði dýrkenda hans.
Drottinn, víst er ég þjónn þinn,
ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar,
þú leystir fjötra mína.
Ég færi þér þakkarfórn,
ákalla nafn Drottins.
Ég greiði Drottni heit mín
og það í augsýn alls lýðs hans,
í forgörðum húss Drottins,
í þér, Jerúsalem,
Hallelúja.

Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“
Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis.

Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.
Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“
Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“
Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“
Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“
Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.