Íbúar suðvesturhornsins eru margir hverjir búnir að fá sig fullsadda af vætutíð síðustu vikna. Þegar þetta er ritað sit ég úti á palli á sólríkum sumarmorgni í Noregi. Ég hef verið hrekkjóttur af og til og sent vinum og fjölskyldumeðlimum heima reglulegar veðurfarslýsingar, svona næstum eins og til að núa þeim um nasir að veðurgæðum er hróplega misskipt um þessar mundir. Ennþá hafa nú flestir húmor fyrir því, sem betur fer. Þó heyrist af fólki sem biður vini sína vinsamlegast um að hætta að senda sólskinsmyndir frá Skandinavíu.

Það hefur löngum verið ljóst að veðurfar getur haft áhrif á sálartetrið í okkur.  Áhrifin geta auk þess farið talsvert eftir því hvaða væntingar við vorum með, hvað við erum að gera og hvað okkur langar til að gera. Vætutíð truflar okkur e.t.v. ekki mikið ef við erum í vinnunni og störfum innandyra. En sú sama vætutíð getur ært óstöðugan ef tíðin sú er í sumarfríinu okkar þegar við hugðumst flatmaga í sólinni, fara í útilegur eða spranga um bæinn með ís í hönd.

Líf okkar er oft eins og veðurfar. Við erum misjöfn að upplagi og í sálartetri okkar ríkir mismundandi veður. Hjá sumum er stabílt veðurfar, nokkuð fyrirsjáanlegt og auðvelt að spá fyrir um næstu daga meðan hjá öðrum er veðurfarið óútreiknanlegra og getur jafnvel birt okkur sýnishorn allra árstíða sama daginn. Það getur reynt á. Jafnt á okkur sjálf sem og aðra í kringum okkur.

Í kristinni trú er vonin eitt af lykilhugtökunum. Vonin um það að eitthvað ástand sem er erfitt þá stundina, verði bærilegra síðar. Að myrkur muni snúast í ljós.  Upprisa Jesú minnir okkur svo sterkt á sigur vonarinnar, sigur lífsins jafnvel þó myrkur dauðans hafi hellst yfir. Í lífinu er óendanlega mikilvægt að eiga von og trúa því að von okkar um betri tíð rætist fyrr eða síðar. Við fyllumst t.d. von þegar spáð er góðu veðri næsta dag en síðan upplifum við sterk vonbrigði þegar veðurspáin rætist ekki eins og oft er á Íslandi. En við munum tilfinninguna, eftirvæntinguna og e.t.v. þá hugsun um að nú muni allt verða gott.

Íslendingar eru sagðir hafa slæmt veðurminni. Við getum lifað langa kafla slæms veðurs en um leið og birtir upp og góða veðrið kemur þá er eins og allt hið fyrra sé gleymt og standi bara í annálum.

En hvernig ætli sálarminnið okkar sé? Það gæti oft komið sér vel að hafa líka lélegt tilfinningaminni, einkum þegar kemur að slæmum tilfinningum. Að ná því að vera fljót að taka á móti góðu tilfinningunum þegar vel gengur en dvelja ekki í þungu dögunum. Það getur vissulega þykknað upp aftur en þá tökumst við á við það þegar þar að kemur.

Þegar við erum í slagveðrinu, horfum upp í vindinn og finnum regnið berja kinn þá skulum við alltaf muna að þarna einhversstaðar, bak við skýin, handan regns og roks, þá skín sólin bjarta eins og hún hefur alltaf gert og mun alltaf gera meðan heimur stendur. Það er sól á bakvið skýin. Það er ætíð von um betri tíð ef tíðarfar er slæmt. Það er von um betri líðan ef við eigum slæma daga. Rétt eins og við Íslendingar erum einkar áhugasamir um að tala um veðrið þá getur líka verið gagnlegt að tala um tilfinningar sínar og líðan. Tala við einhvern sem við treystum, tala við Guð. Jesús segir í Mattheusarguðspjalli: „Komið til mín öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin og ég mun veita yður hvíld“. Í þessum orðum er von, vonin um hvíld eftir þrautagöngu, vonin um sólskin eftir langa vætutíð.

Sr. Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur Útskálaprestakalli

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins. Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“
Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér. Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.

Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.