Guðspjall dagsins er fljótt á litið hefðbundin kraftaverkasaga um Jesú. Jesús hittir fólk á leið sinni og læknar það.

Á þessum tíma voru holdsveikir eða líkþráir dæmdir til að dvelja utan alfaraleiðar. Í 3.Mós.13.44-46, segir svo:
(líkþrár maður og óhreinn). Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum.  Líkþrár maður, er sóttina hefir, _ klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ,Óhreinn, óhreinn!`  Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal búa sér. Bústaður hans skal vera fyrir utan herbúðirnar.

Í frásögn lúkasar hafa hinir 10 líkþráu hópast saman eflaust til að sækja styrk og félagaskap frá hvor öðrum í eymd sinni. Einhvern pata hafa þeir haft af því hver Jesús sé og þeir hrópa og kalla þegar hann allt í einu birtist í nágrenninu. Kraftaverkið er það sérstakt að lækningin verður þegar þeir hlýða honum og eru lagðir af stað til prestanna.

En sá eini sem ákveður að staldra við og þakka, hann hlýtur þar að auki hjálpræðið; ,,trú þín hefur bjargað þér” segir í textanum.

Hinir níu vissu hver Jesú var, en þekktu hann ekki. Þeir vissu hvað hann gat gert, en ekki hver hann var. Þeir þáðu lækninguna en yfirsást uppspretta lækningarinnar.

Upp í hugann kemur sagan af Gullgæsinni. Gæsin verpti gulleggjum, en hvort skyldi vera mikilvægara eggin, eða hænan sem verpir þeim?

Að þakka þeim sem þakka ber.

Þessi eini sem sneri sér við, hann ekki bara þakkaði, hann sá Guð, hann sá skapara himins og jarðar, hann sá son Guðs sem komin var til að frelsa heiminn. (Jh.12) Hann sá þann, sem einn getur bjargað.

Í Jesaja 45 kafla, versum 21-22 segir: ,,Enginn Guð er til nema ég. Fyrir utan mig er enginn sannur Guð og hjálpari til. Snúið yður til mín og látið frelsast, þér gjörvöll endimörk jarðarinnar, því að ég er Guð og enginn annar.”

Kraftaverk Guðs eru stórkostleg og hans er hægt að leita í öllum kringumstæðum, öllum er frjálst að ákalla Guð, hann fer ekki í manngreinarálit. En að þekkja Guð er annað en að kannast við hann, að þekkja Guð,  kynnast honum og umgangast, er eilífa lífið. ,,En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.” (Jh.17.3.)

Páll postuli komst oftar en ekki í hann krappann og hefði eflaust oftar þegið kraftaverk Guðs til að losna við erfiðar aðstæður, s.s. barsmíðar, fangelsi eða sjávarháska. En þrátt fyrir miklar hrakningar þá er þakklæti það þema sem Páll skrifar oftar en ekki um í bréfum sínum í Nýja Testamentinu: Hann segir: ,,Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú.”(1.Þess. 5.18.) Aðrar þýðingar segja: ,,þakkið Guði í öllum kringumstæðum.” Þakkið fyrir að þekkja hann, að eiga hann að. Sama hvað á dynur í lífi okkar þá er Guð hinn sami.

Jesús segir:,,Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.” (Jóh.17.33.) Þökkum gjafir Guðs en förum ekki á mis við Gjafarann. Kraftaverk sýna mátt Guðs, en betra er líf í blessun Guðs í öllum kringumstæðum.

Ég lýk þessari hugleiðingu á bæn Páls: ,,Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.” 2.Kor.1.3-4.

Amen.

Sr. Sylvía Magnúsdóttir

Hallelúja.
Lofa þú Drottin, sála mín.
Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
Treystið eigi tignarmönnum,
mönnum sem enga hjálp geta veitt.
Þegar öndin skilur við þá
verða þeir aftur að moldu
og áform þeirra verða að engu.
Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar
og setur von sína á Drottin, Guð sinn,
hann sem skapaði himin og jörð,
hafið og allt sem í því er,
hann sem er ævinlega trúfastur.
Hann rekur réttar kúgaðra,
gefur hungruðum brauð.
Drottinn leysir bandingja,
Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta,
Drottinn verndar útlendinga,
hann annast ekkjur og munaðarlausa
en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
Drottinn er konungur að eilífu,
Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
Hallelúja.

En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.
Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.
En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.
En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“