Við höfum upplifað heimsfaraldur á síðustu mánuðum sem hefur kennt okkur hvað lífið er brothætt og hvað stundum þarf lítið til að það fari einhvern veginn allt á hvolf. Sumir hafa raunar ekki þurft neinn faraldur til að öðlast skilning á því að allt í einu getur eitthvað gerst til þess að líf manns breytist allt í einu til verri vegar.

 

Ættingi eða vinur, gengur gegnum sjúkdóm, eða lendir í slysi og það var enginn undirbúinn. Enginn var tilbúinn, en það gerðist samt. Þá er gott að geta spennt greipar og beðið heitt og innilega til hans, sem er „yfir og allt um kring, með eilífri blessun sinni.“ Við stóðum okkur vel í baráttunni við Covid- 19 veiruna og reyndum að hlýða öllu sem fyrir okkur var lagt. Hlustuðum flest daglega á „þríeykið“ Ölmu, Þórólf og Víði, í margar vikur. Lærðum heilmikið um veirur og sjúkdóma.

Nú er daglegt líf á Íslandi, óðum að færast í fyrra horf þó enn vanti auðvitað margt upp á að allt sé orðið eðlilegt á ný því enn eru margir veikir í heiminum af völdum þessa sjúkdóms. Eitt af því sem tekið er fyrir í textum 2. sunnudags eftir Þrenningarhátíð, er hvort við skiljum og þiggjum boð húsbónda okkar, Guðs almáttugs, um að mæta til veislu sem hann hefur nú látið útbúa okkur til heiðurs. Meðan við óttuðumst um tilveru okkar þurftum við mörg að halda okkur heima við og forðast fjölmenni.

Nú er okkur boðið til þakkarveislu að loknu erfiði, en höfum við tíma? Getur verið að við séum kannski svolítið fljót að gleyma hver það er sem verndar okkur, leiðir og styrkir þegar við eigum erfitt? Guð hafði mikið fyrir að útbúa þessa tilteknu veislu. Lífið okkar, með öllu þess litskrúði. Tilveru mannsins. Hann gaf einkason sinn, Jesú Krist, í dauðann svo við gætum öðlast eilíft líf. Hann gaf hluta af sjálfum sér svo við eignuðumst þátttökurétt í veislunni sem hann hefur undirbúið. Það er svo nauðsynlegt að geta þakkað fyrir sig því þá sýnum við um leið að það er ekki allt sjálfsagt sem við njótum frá degi til dags.

Til er saga um það að eitt sinn læknaði frelsarinn okkar 10 holdsveika menn sem höfðu beðið hann um hjálp, en aðeins einn þeirra snéri aftur til að þakka fyrir sig. Nú skulum við gæta okkur á að ekki fari eins fyrir okkur. Að við séum tilbúin að þiggja, og munum líka eftir að þakka fyrir okkur. Við þurfum samt ekkert að hengja haus og koma skríðandi til hans, því hann veit alveg hvernig við erum og skilur okkur til fulls, á undan okkur sjálfum. Notum fegurð sumarsins til að minnast veislunnar sem okkur hefur verið boðið til, þiggjum það boð og þökkum fyrir okkur. Guð blessi sumarið og frelsið sem þú skalt nota til að byggja sjálfan þig upp andlega ekki síður en líkamlega.

Séra Haraldur M. Kristjánsson sóknarprestur

Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins og þér sem ekkert fé eigið, komið, komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk. Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður? Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa. Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa. Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnanda þjóðanna. Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels, því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Undrist ekki, systkin, þótt heimurinn hati ykkur. Við vitum að við erum komin yfir frá dauðanum til lífsins af því að við elskum bræður okkar og systur. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. Hver sem hatar bróður sinn eða systur er manndrápari og þið vitið að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér. Af því þekkjum við kærleikann að Jesús lét lífið fyrir okkur. Svo eigum við og að láta lífið hvert fyrir annað. Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.

Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gerði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom að veislan skyldi vera sendi hann þjón sinn að segja þeim er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gert sem þú bauðst og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“