Biðjum.  Guð, þú sem ert smyrsl sálarinnar, lækna sár okkar sem ekki gróa og sárin sem við höfum valdið öðrum.  Verði þinn vilji að eilífu.  Amen.

Við erum minnt á að það er svo margt sem við tökum sem gefnu í lífinu sem er í raun svo stórkostlegt ef við gefum því gaum.

Þarna var maður, heyrnarlaus og málhaltur.  Lifði í heimi þar sem ekkert mannlegt orð heyrist, engin tónlist, stöðugir erfiðleikar að gera sig skiljanlegan.

Það á ekki að koma á óvart að það var einn sem skildi.  Jesús frá Nasaret.

Sagan er myndræn og lifandi það er auðvelt að sjá atburðina fyrir sér. Það er augljóst að það voru sjónarvottar til staðar.

Jesús nálgast manninn.  Hann var ekki einn af þeim sem hljóp til þegar fréttist af komu Jesú, hann hafði ekki burði til þess.  Gat ekki heyrt að von væri á honum og ekki tjá líðan sína.  Hvað gerir Jesús?  Jú, tekur í hönd hans og leiðir afsíðis.  Hlýtt handtak getur sagt svo margt, við erum mörg sem höfum saknað þess á undanfarin misseri að geta ekki heilsast með handartaki.  Handartak vekur von, myndar tengsl, traust.  Þarna eru þeir tveir. Jesús segir þetta sérstaka orð; effaþa, opnist þú.  Fyrsta orðið sem maðurinn heyrir og eyru hans opnast, tungan losnar.

Þannig var Jesús, þannig er Jesús.

Hvers vegna fá ekki allir bænasvör líkt og maðurinn í frásögunni? Því getur ekkert okkar svarað.  En við getum verið viss um að Guð heyrir allar bænir okkar.  Hann er ávallt við hlið þeirra sem þjást og líða.  Það er trú, þar finnst von.  Við erum ekki skilin eftir í erfiðleikum.

Guðspjallið minnir okkur á að við höfum svo margt að þakka fyrir.

Við skulum halda vöku okkar, þakka fyrir það sem við eigum og fara vel með gjafir okkar.

Séra Sigrún Óskarsdóttir

Lofgjörðarlag vikunnar er Drottinn er minn hirðir flutt af Páli Rósinkrans, hann er með okkur í öllum kringumstæðum og heldur utan um okkur: https://www.youtube.com/watch?v=LihBUMC3fGA

Orð Drottins kom þá til Sakaría: Svo segir Drottinn allsherjar:
Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.

Takið á móti trúarveikum án þess að dæma skoðanir þeirra. Einn er þeirrar trúar að alls megi neyta, annar er veikur í trúnni og neytir einungis jurtafæðu. Sá sem neytir skal ekki fyrirlíta hinn sem neytir ekki og sá sem neytir ekki skal ekki dæma þann sem neytir því að Guð hefur tekið á móti honum. Hvað átt þú með að dæma þjón annars manns? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
Einn gerir mun á dögum, annar metur alla daga jafna. Hver og einn fylgi sannfæringu sinni. Sá sem þykist verða að taka tillit til þess hvaða dagur er gerir svo vegna Drottins. Og sá sem neytir kjöts gerir það vegna Drottins því að hann gerir Guði þakkir. Hinn sem lætur óneytt gerir svo vegna Drottins og færir Guði þakkir.

Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.