Við erum nýbúin að upplifa atburði páskanna, síðasta kvöld Jesú með lærisveinunum, svik Júdasar, afneitun Péturs, kröfu fólksins um krossfestinguna, pintingar, dauða og síðast en ekki síst upprisu Jesú.

Öll okkar trú er grundvölluð á því að við trúum því sem gerðist við gröfina, trú og líf kirkjunnar grundvallast á upprisu Jesú Krists. Ef það er engin upprisa þá er trú kirkjunnar einskis verð, guðsþjónusturnar tilgangslausar, kristið líf, kristið siðferði, kristin gildi, meiningarlaust. Vegna þess að ef Jesús reis ekki upp frá dauðum þá er engin meining í orðinu kristinn eða kristindómur.

Lærisveinarnir öðlast trúverðugleika sinn af verkum sínum, þeir hefðu getað pakkað saman og farið heim til Galíleu en það gerðu þeir ekki. Þeir höfðu fylgt meistara sínum eftir í þrjú ár án þess að líta til baka. Þeir höfðu lært, séð og upplifað mjög erfiðar stundir á föstudeginum langa. Meistarinn hafði verið tekinn höndum og svikin af eigin lærisveini og krossfestur. Af hverju í ósköpunum hefðu þeir átt að halda því fram að hann væri upprisinn ef þeir vissu að það var ósatt? Það voru engir peningar eða verðlaun í boði heldur þvert á móti máttu þeir þola ofsóknir og píslardauða. Af hverju héldu þeir það út, þegar þeir gátu auðveldlega farið heim og stundað sínar fiskveiðar og bara haft það gott.

Sál öðru nafni Páll, hann sem ofsótti Kristna, varð fyrir sýn á leiðinni til Damaskus sem hann segir frá í 15 kafla Kórintubréfsins. Hvað með hann, af hverju tók hann sína ákvörðun um að snúa lífi sínu við og fylgja Jesú (1. kor 15. 3-9).

Páll heldur því fram að það séu til lifandi vitni sem hafi séð Jesú eftir upprisuna.

Allir vitnisburðirnir um upprisu Jesú eru trúverðugir, þeir eru nálægt atburðunum í tíma og segja allir sömu sögu, Jesú reis upp frá dauðum.

Síðan er það önnur saga hvernig Kristin trú hefur breytt úr sér um alla veröld, til nýrra menningarheima og nýrra tíma. Guðspjallið hefur lifað af allar þrengingar, mistök kirkjunnar og þjóna hennar. Guðspjallið hefur alltaf komið aftur og risið upp sem vitnisburður um hinn sanna Guð og heilagan anda sem kennir okkur að meðtaka orð Guðs. Þetta snýst nefnilega allt saman um trú.

Trúir þú virkilega á þetta? Þessari spurningu er gjarnan hent fram af fullum krafti, jafnvel til okkar prestanna. Eða þegar efinn kemur og leikur sér í huga okkar, trúir þú virkilega á þetta? Það er virkilega gleðilegt að geta svarað ákveðið – já.

Mig langar að spyrja þig: Trúir þú á þetta? Trúir þú því að Jesú hafi risið upp frá dauðum? Trúir þú að hann sé sá sem kirkjan segir að hann sé og viðurkennir þú að Jesús sé Sonur Guðs, frelsari okkar?

Kristin trú snýst ekki um að vera með eða á móti einhverju, að trúa er líkara því að eiga góðan vin, vin sem manni þykir vænt um og er í góðu sambandi við, vin sem maður talar við og treystir á. Það eru nefnilega ekki rök sem stjórna því hvort við séum kristinn eða ekki. Það er samband okkar við lifandi Guð.

Tómas fékk að sjá Krist og trúði. Við höfum ekki séð hann eins og við sjáum hvert annað. Við höfum ekki heyrt röddu hans eins og við getum heyrt rödd annarra manneskju. Samt sem áður er enginn vafi í okkar huga að hann er lifandi. Það upplifa flest okkar í eigin lífi. Við erum tilbúin til að standa upp hvar sem er og hvenær sem er og segja þessi fallegu orð: „Jesú lifir“.

Ef trúin á að lifa þá verður hún að vera lifandi. Trúarlíf snýst meðal annars um að vera með öðrum sem trúa, í samfélagi, guðsþjónustum, biblíuhópum, bænahópum eða bara hverju því sem kristnir eiga og gera sameiginlega. Að lifa trúnna getur þannig snúist um að tala við Jesú, í bæn og hugleiðslu, heyra og lesa sögurnar um hann og taka þátt í lífi hans alla daga. Trú er nefnilega lífsmáti, og hvort sem maður er barn, unglingur eða fullorðinn hefur maður alltaf val um það hvort maður vill trúa eða ekki. Tómas valdi að trúa þegar hann sagði við Jesú: „Herra minn og Guð“.

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu ykkar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Færið fram hina blindu þjóð
sem þó hefur augu
og hina heyrnarlausu menn
sem þó hafa eyru.
Allar þjóðir skulu safnast í einn hóp
og lýðirnir koma saman.
Hver þeirra gat boðað þetta
og skýrt oss frá því sem varð?
Leiði þeir fram vitni sín
og færi sönnur á mál sitt
svo að þeir sem heyra segi: „Þetta er rétt.“
Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn,
þjónn minn sem ég hef útvalið
svo að þér vitið og trúið mér.
Skiljið að ég er hann.
Enginn guð var myndaður á undan mér
og eftir mig verður enginn til.
Ég er Drottinn, ég einn,
og enginn frelsari er til nema ég.
Það var ég sem boðaði, frelsaði og kunngjörði þetta
en enginn framandi guð á meðal yðar.
Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn,
að það er ég sem er Guð.
Héðan í frá er ég einnig hinn sami,
enginn hrifsar neitt úr hendi minni,
ég framkvæmi, hver fær aftrað því?

því að sérhvert barn Guðs sigrar heiminn og trú okkar er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
Hver er sá sem sigrar heiminn nema sá sem trúir að Jesús sé sonur Guðs?
Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu eingöngu heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar því að andinn er sannleikurinn. Þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:] Andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. Við tökum manna vitnisburð gildan en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs sem hann hefur vitnað um son sinn. Sá sem trúir á son Guðs hefur vitnisburðinn innra með sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gert hann að lygara af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð sem Guð hefur vitnað um son sinn. Og þetta er vitnisburðurinn: Guð hefur gefið okkur eilíft líf og þetta líf er í syni hans. Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki á son Guðs á ekki lífið.

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“
En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“
En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“
Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“
Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.