Guðspjall dagsins vekur eflaust upp hjá okkur spurningar og tilfinningu fyrir óréttlæti. Flestum finnst okkur eðlilegra að þau sem hafa unnið lengri vinnudag fái hærri laun en þau sem hafa unnið styttri vinnudag. Annað væri ósanngjarnt.

Hvar liggur réttlætið í þessu  samhengi? Er það til dæmis réttlátt að einhver vinni þægilega vinnu með háum launum á meðan annar þarf að vinna erfiðisvinnu fyrir lúsarlaunum og þarf því að berjast í bökkum með að ná endum saman.

Er það réttlátt að 20% af mannfjöldanum eigi 80% af öllum verðmætum?

 

Það er gott að velta því fyrir sér hvað Jesús er að meina með þessari frásögn. Þegar hann segir dæmisögur þá segir hann ekki bara góðar sögur heldur segir hann líka eitthvað um ríki Guðs.

 

Hann segir okkur af því hvernig hlutirnir eru í ríki Guðs og þar eru þeir með öðrum hætti en við eigum að venjast. Réttlæti Guðs gengur út á að hann mætir öllum manneskjum jafnt, gerir ekki upp á milli fólks með einum eða neinum hætti. Hann veit hvað það er sem hver og ein/einn þarfnast, raunverulega. Sem er ekki endilega það sem við sjálf höldum að við þörfnumst. Við getum því sagt að Guð uppfylli þarfir en leitist ekki við að seðja græðgi.

 

Jesús segir í dæmisögunum frá afstöðu sinni til okkar í stóru og smáu og hann kennir okkur hvernig við eigum að koma fram við hvert annað. Og stundum gerir hann það með því að segja okkur hvernig við eigum ekki að koma fram við hvert annað.

 

Frásagnir Jesús eru um fólk í ólíkri stöðu og mismunandi hltuverkum. Hann talar um einstaklinga með ólíka menntun og stétt, hann segir frá ungum og gömlum, konum og mönnum. Sögurnar innifela samfélag fjölbreytts fólks með ólíkar vonir og væntingar í lífinu. Það má skilja kennslu Jesú þannig að allir eigi sinn stað og geti sinnt sínu. Allt fólk skiptir máli. Engin manneskja er vanhæf, of lítil eða ómerkileg, of gömul eða veik í augum hans heldur erum við öll jöfn. Enda nóg til af hlutverkum fyrir alla. Þó verkefnin séu misjöfn og hlutverkin ólík eru þau öll jafn mikilvæg þegar upp er staðið. Þau snúa öll að því að samfélagið eins og við skiljum það virki sem best. Stundum heyrum við af fólki sem hefur gefið Guði líf sitt og leitast við að vinna þau verk sem þau eru kölluð til, kölluð af Guði og svo heyrum við af fólki sem er að vinna verk sem það gefur Guði. Fólk, hjúkrar, kennir, eldar, smíðar og hugsar um aðra og Guð blessar þetta allt.

 

Þau sem treysta Drottni hafa ekki áhyggjur af laununum sínum, því þau vita að líkt og Liljur Vallarins þá fá þau það sem þau þurfa frá Guði.

Þannig að sagan í Guðspjalli dagsins fjallar líklega frekar um gott hjartalag, kristilegt hugarfar sem kemur fram í góðmennsku launagreiðandans þegar hann ákvað að greiða öllum einn denar, þeim sem unnu allan daginn vegna þess að um það hafði verið samið og hinum sem unnu aðeins klukkustund því þar var þörf sem hann vildi mæta. Þeir sem höfðu beðið eftir að fá vinnu allan daginn en enga fengið og komust svo loks í örstutt hlutastarf fengu þá aurinn sem þeir þurftu til að komast af þann daginn.

 

Þegar hinir sem komu fyrstir fóru að mögla yfir því að hinir sem komu síðastir fengu líka denar þá benti hann þeim á að það væri hans mál hvort hann vildi vera góðgjarn eða ekki og að það væri leitt að þeir sæu ofsjónum yfir því.

Sem er góð ábending til mín og kannski til ykkar, að velja það að fagna og samgleðjast þegar það gengur vel hjá öðrum eða þegar þörfum annarra er mætt. Í staðin fyrir að falla í öfund, afbrýði og gremju sem gerir engum gott.

Það er svo önnur saga að standa með sér og setja mörk ef sama fólkið mætir aftur og aftur í lok dags rétt til að ná í launin sín eftir dagsverk annarra.

Séra Díana Ósk Óskarsdóttir & Séra Fritz Már Jörgensson

Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.

Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post comment