Textar dagsins fjalla um val. Við tölum oft um það að við verðum að spila vel úr þeim spilum sem við fáum á hendi. Það á sannarlega við þegar við horfum til þess hvar við fæðumst, í hvaða heimshluta, á hvaða tíma, við hvaða aðstæður, í hvernig fjölskyldu, hvaða foreldra við fáum, hvaða tækifæri og hvernig heilsu. Að öðru leyti eigum við val. Val um að sjá glasið hálftómt eða hálffullt, val um að segja satt eða ekki, val um að hjálpa öðrum eða ekki, val um að styðja við fólkið okkar eða ekki, val um að taka þátt í baktali eða ekki og val um að taka þátt í spillingu eða ekki. Við stöndum frammi fyrir vali oft á dag, alla daga. Valið getur líka snúist um viðhorf okkar og túlkun.

Við höfum öll staðið frammi fyrir þeirri ákvörðun að ljúga eða segja satt, stela eða borga, skara eld að eigin köku eða deila með okkur. Við veljum líka hvernig við birtum okkur, hvort við tjáum okkur, um hvað og við hverja, við veljum hvort við bregðumst við öðrum í vörn eða hvort við leitumst við að sýna kærleik í verki.
Á sama stað og val okkar og hegðun getur valdið særindum, misskilningi, óöryggi, óróleika og vanlíðan getur það einnig vakið hjá okkur og öðrum, vellíðan, frið, ró og öryggi.
Mörg okkar hafa valið að fylgja Kristi og gera hann að leiðtoga lífs okkar. Oft á fermingaraldri en ekki alltaf. Á þeirri stundu höfum við leitað hins góða. En dugir það val fyrir hvern dag það sem eftir lifir? Eða veljum við þetta aftur og aftur á hverjum degi?

Guð gerir ekki mannamun, þegar Jesús gekk um í holdi hér á jörðinni setti hann sig aldrei ofar öðrum manneskjum. Hann umgekkst alla, óháð trú, kynhneigð eða samfélagshlutverki. Jesús Kristur sýndi okkur það með verkum sínum og lífi að allar manneskjur eru jafnar í huga Guðs. Guð skapaði allar manneskjur í sinni mynd, hver og ein þeirra er fullkomin sköpun Guðs. Guð gerði ekki mistök í sköpunarverkinu sem við erum öll hluti af. Við streðum oft við að taka á móti elsku Guðs og eigum oft erfitt með að meðtaka gjafir hans til okkar, oft er það vegna þess að við teljum okkur ekki eiga skilyrðislausa ást skilið.

Guð gerir kröfur til okkar á sama tíma og hann gefur okkur líka stórkostegar gjafir. Guð heilar og gefur okkur líf í gnægð, hann endurnýjar og uppfyllir það sem við þurfum á að halda. Eitt af því sem okkur er uppálagt að gera er að elska okkur sjálf, náungann og Guð. Að sýna kærleika og auðmýkt. Þegar við erum auðmjúk verður kærleikur okkar skýr og hreinn, í auðmýktinni er fátt sem getur haggað kærleikanum, vegna þess að í auðmýktinni vitum við hver við erum. Ef við erum ásökuð um eitthvað þá haggar það okkur ekki því við erum sönn og ef einhver vill setja okkur á stall tökum við ekki við því. Þegar við erum streitt og þjökuð af áhyggjum er það venjulega vegna þess að við erum að reyna að stjórna öllu í okkar lífi en þegar við erum friðsæl og allt gengur vel er það oftast vegna þess að við látum Guði það eftir að stjórna.

Veljum það að leggja okkur og fólkið okkar í Guðs hendur, að biðja Guð um handleiðslu og styrk til þess að taka við elsku hans og þeirri dýrmætu gjöf sem hann gaf okkur með krossfestingu Jésú, hinu eilífa lífi og því að kallast elskuverð börn hans. Einn dag í einu, dag eftir dag þannig að við getum tekið undir orð Páls þegar hann segir: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“

Díana Ósk og Sr. Fritz Már

Leitið hins góða en ekki hins illa,
þá munuð þér lifa
og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður
eins og þér hafið sagt.
Hatið hið illa og elskið hið góða,
eflið réttinn í borgarhliðinu.
Þá má vera að Drottinn, Guð hersveitanna, miskunni sig yfir þá
sem eftir eru af ætt Jósefs.

En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína. Nú er svo komið að mér verður fórnfært og tíminn er kominn að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.

Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.

Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.