Þurfamaður ert þú mín sál,

þiggur af Drottni sérhvert mál,

fæðu þína og fóstrið allt,

fyrir það honum þakka skalt.

 

Þessi þekkta borðbæn er í 1. Passíusálmi eftir sr. Hallgrím Pétursson, en Passíusálmarnir  eiga svo sérstakan sess í íslensku trúarlífi einkum núna á föstunni þegar við horfum til páska. Þetta bænavers sr. Hallgríms er til marks um kveðakaparsnilld sálmaskáldsins og djúpa guðfræðilega þekkingu og sterka trúarlega tilfinningu, sem gætir svo víða kveðaskap hans.

 

Þurfamaður er sá sem ekkert á og er öðrum háður með lífsafkomu sína. Jafnan var litið niður á þau sem voru í slíkri stöðu og sem þurftafreka byrði. En Hallgrímur setur það í stærra samhengi og segir að við erum öll þurfamenn. Við erum Guði háð því hvern dag hverja stund þiggjum við úr hendi hans lífsbjörgina og allt sem við þörfnumst til líkama og sálar. Það allt er fengið að láni hjá Guði, þá er svo mikilvægt að þakka – þakka fyrir góðar og fagrar gjafir Guðs

 

Passíusálmarnir eru ritaðir fyrir meira en 350 árum, þegar fólk átti svo lítið af efnislegum gæðum og ekki var allt sjálfgefið. Það þekkti af eigin raun hvernig allt getur breyst á svipstundu. Þá verður hver stund, máltíð, fjölskylda og allt sem þú átt svo dýrmætt og þakkarvert.

 

Nú eru tímarnir með allt öðrum hætti og við eigum svo miklu meira en nóg, en ennþá skiptir þakklætið svo miklu máli og er ein sterkasta og jákvæðasta tilfinning sem við getum notið og undirstaða velferðar og hamingju okkar. Þakklæti felst í því að taka eftir gjöfunum allt um kring, sem við janvel tökum sem sjálfgefnum hlut. Að þakka er að meta virði hlutanna og hvað það er sem skiptir okkur í raun og sann mestu máli. Að þakka er að beina augum sínum að því góða, jákvæða og því sem hefur mest um velferð okkar og hamingju að segja.

 

Inntak föstunnar fram að páskum er að líta til þeirra gilda  og lífsgæða sem vega þyngst í lífinu. Að rækta vináttu, umhyggju og ástúð sem birtist samvinnu, samhjálp og virðingunni fyrir lífinu og samferðarfólki. Fyrir það allt er svo mikilvægt að minnast, njóta og rækta. Það gerum við með því að tjá og sýna þakklæti.

 

Séra Stefán Már Gunnlaugsson

En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.

Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þakkið miklu fremur Guði. Því að það skuluð þið vita og festa ykkur í minni að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn – sem er sama og að dýrka hjáguði – á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. –

Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.
En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.
Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“
Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“
Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“