Það eru fátt sem gerir okkur prestunum jafn erfitt fyrir og frásögur um illa anda í Nýja testamentinu. Rétt eins og það er fátt sem er jafnyndislegt eins og frásagnir um Jesús sem læknar og gerir kraftaverk. En þegar við förum að tala um djöfla og púka, að ég tala ekki um þá sem eru andsettir, þá er umræðan orðin svo fjarlæg okkur að við eigum erfitt með að samsama okkur við slíkar frásagnir.

Þetta er merkilegt fyrir þær sakir að á sama tíma er gríðarmikill áhugi á illum öndum -og góðum og alls kyns púkum og djöflum í afþreyingariðnaðinum. Það eru gerðar bíómyndir og sjónvarpsþáttarseríur um efni þar sem hið illa ræður ríkjum ja-í það minnsta þar til það góða sigrar.

Á tímum Jesú Krists var sjálfsagt að trúa á slíkar verur og óttast þær. Þær holdgerðust í yfirnáttúrulegum kröftum sem birtust jafnvel í gegnum sjúkdóma og í manneskjum sem voru stimplaðar sem andsettar. Vald Jesú yfir andaheiminum gegnir mikilvægu hlutverki þegar við leitumst við að skilja hvernig fólkið leit á hann.

Djöflar og illir andar spila mikilvægt hlutverk í Nýja testamentinu, þeir opinbera fyrir okkur hver Jesús er en á sama tíma eru þeir fulltrúar eyðileggjandi afla sem Jesús berst á móti. Jesús á einnig í sérstöku sambandi við þessar verur, hann viðurkennir tilvist þeirra og berst á móti þeim en setur fram spurningar um tengsl á milli myrkravaldanna, syndarinnar og sjúkdóma.

Í Guðspjalli dagsins heyrðum við af því að Jesús rak út illan anda sem var mállaus. Hér sjáum við líka merki þess að samhengi er talið vera á milli sjúkdóma og illra anda. Samhengið á milli sjúkdóma og illra anda birtist í því að andarnir tákna eyðileggjandi öfl sem ekki bara ógna andlegri heilsu fólks heldur einnig líkamlegri. Mögulega er auðveldara að tengjast illum öndum og djöflum ef við lítum á þá sem ímynduð tákn hinna vondu afla er ógna lífi mannanna. Þetta mótast hugsanlega af því hversu lítið við erum tengd þessum þáttum í samtímanum sem með alla sína þekkingu, lyf og læknisgetu hefur einfaldlega ekki mikið rými fyrir illa anda og djöfla í daglegu lífi.

Á sama tíma birtist í framsetningu afþreyingarmiðlanna ákveðin þrá eftir því sem við getum ekki skýrt, þrá eftir því að skilja og fá að sjá baráttu ills og góðs með eigin augum, þrá eftir að upplifa eitthvað sem ógnar hinni rökrænu sýn okkar á tilveruna. Ef við förum og heimsækjum geðdeildir spítala þá heyrum við frásagnir af upplifunum fólks af illum öndum, þetta hef ég sjálfur séð þegar ég vann í þeim geira. Mögulega tengist þetta því að fólk sem er á slíkum stofnunum er ekki jafn upptekið af rökræna heiminum og við hin, enda stjórnast líf sumra sem þar búa af öflum sem ekki sjást en ógna á sama tíma lífi þeirra, þegar ég vann með geðsjúka varð ég þess áskynja að á geðdeildunum snýst þetta stundum um yfirnáttúrulega krafta sem kasta fólki í djúp undirmeðvitundarinnar.

Spurningin sem eftir situr er af hverju við höldum okkur við kennisetningar Biblíunnar þegar kemur að illum öndum, púkum og djöflum, hefur þetta eitthvað að segja í dag, eða ættum við kannski bara að afskrifa slíka þætti sem goðsagnir sem ekki hafa neina þýðingu í samtímanum. Mögulega getum við samt alltaf talað um eyðileggjandi öfl sem hafa neikvæð áhrif á mannsandann og mannslíkamann – eða hvað?

Það er freisting í okkar rökræna og upplýsta samfélagi að trúa því að við getum haft stjórn á eigin aðstæðum, á okkar eigin lífi, að við getum farið í gegnum lífið á skynseminni.. En þegar við skoðum samfélagið okkar og veröldina sem við lifum í er auðvelt að finna spor eða ummerki um eyðileggjandi öfl. Við þurfum ekki að líta lengra en til ofbeldis í samfélaginu eða sjálfsvíga sem eru mikil ógn. Eyðileggjandi kraftar eru þannig aldrei langt frá manneskjunni og já, mögulega má segja að það líti út fyrir að þessi öfl séu stundum hluti af okkur. Í þessu samhengi má sjá hversu dýrmæt trúin á þann sem ræður við þessi öfl er, trúin á Jesú Krist, sem stóðst freistingar djöfulsins í eyðimörkinni og sigraði dauðann á krossinum.

Trúin á Jesú Krist sýnir okkur að til er afl sem er öllu illu yfirsterkara og að Guð sé í rauninni þyngdaraflið sem dregur alla til sín. Trúin á Guð ber með sér trúnna á að það sé að finna alheimsafl sem verndar allt líf, himneskt afl sem við getum treyst. Við getum verið fullviss um það að Guð almáttugur er sjálfur lífskrafturinn, lífið sjálft, kraftur sem alltaf er öllum öðrum kröftum yfirsterkari.

Sr. Fritz Már Jörgensson

En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.

Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þakkið miklu fremur Guði. Því að það skuluð þið vita og festa ykkur í minni að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn – sem er sama og að dýrka hjáguði – á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.

Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.
En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.
Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“
Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“
Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“