Ég átti góða stund með sjálfum mér þegar ég fór á fjall í dag. Það var hátt í 10 stiga frost en afar fallegt veður. Sólin sýndi hversu vel gengur með baráttu ljóssins gegn myrkrinu sem hefur verið allt umlykjandi þegar hún reyndi allt hvað hún gat að leyfa geislum sínum að skína í hvert horn og hvern kima og gaf í jafnframt öllu sem hún hitti hlýju og aukna fegurð.

Á leiðinni upp brekkur og gil var ég að hugsa um það, að þrátt fyrir að árið 2020 hefði sannarlega verið óvenjulegt ár, þá var það mér alls ekki slæmt og meira að segja, þá get ég sagt að það hafi verið mér gott og farsælt á ótal vegu. Ég þurfti að aðlagast nýjum kringumstæðum og mín upplifun er að það hafi gengið afar vel. Ég þurfti að læra alls konar nýja hluti og það fannst mér líka ganga vel. Ég þurfti að læra að umgangast sjálfan mig og aðra öðruvísi en vant er og það hefur líka gengið vel. Rétt eins og svo margir aðrir sakna ég samskipta og svo margs annars frá lífinu fyrir Covid-19 en ég veit líka að allt mun lagast fyrr en varir.

Þrátt fyrir að nýja árið hafi byrjað með ósköpum úti í heimi þá hefur það einnig fært okkur von um betri tíma og blóm í haga. Sigur vonarinnar er framundan enda bendir allt til þess að fyrir lok þessa árs verðum við laus við Covid-19 en að sama skapi rík af lærdómi. Lærdómi sem innifelur náungakærleika, auðmýkt og vonandi betri skilning á smæð okkar mannanna gagnvart sköpunarverki Guðs.

Líklega er óhætt að fullyrða að við skynjum flest betur hversu dýrmætt lífið er, hversu dýrmætt fólkið okkar er og hvað það er langt í frá sjálfgefið að geta ferðast um alla veröld eða umgengist hvern sem er.

Að lokum langar mig að gera orð góðrar manneskja að mínum en viðkomandi sagði að það að trúa á traust og treysta trúnni væri líklega mikilvægasta gjöfin sem Guð hefði gefið í veganestiu lífsins.

Drottinn blessi himininn sem vakir yfir okkur.

Drottinn blessi jörðina sem við göngum á.

Drottinn blessi það sem að baki er, fortíðina.

Drottinn blessi það sem framundan er, framtíðina.

Séra Fritz Már Jörgensson

 

Lofgjörðarlag vikunnar er lagið Here´s my heart með Casting Crowns. John Mark Hall söngvari hjómsveitarinnar segir í byrjun lagsins að við þurfum ekki mæta Guði sem einhver önnur en við erum heldur mætum við honum eins og við erum. Hann biður Guð í byrjun bænar að sýna sér hjarta sitt svo hann geti fylgt honum. Munum á hverjum degi að gefa Guði hjarta okkar á nýju ári: https://www.youtube.com/watch?v=qkSBmRAVXNc&list=RDdiQPE7lYNsQ&index=6

Þá sagði Jósúa við fólkið:
„Helgið ykkur því að á morgun mun Drottinn vinna kraftaverk á meðal ykkar.“ Því næst sagði Jósúa við prestana: „Hefjið sáttmálsörkina upp og haldið af stað á undan fólkinu.“ Þá hófu þeir sáttmálsörkina upp og gengu á undan fólkinu.
Drottinn sagði þá við Jósúa:
„Í dag tek ég að upphefja þig í augum alls Ísraels svo að hann komist að raun um að ég verð með þér eins og ég var með Móse. En bjóð þú prestunum sem bera sáttmálsörkina: Þegar þið eruð komnir að Jórdan skuluð þið nema staðar úti í ánni.“ Því næst ávarpaði Jósúa Ísraelsmenn:
„Komið hingað og hlustið á boðskap Drottins, Guðs ykkar.“ Síðan sagði hann: „Þannig skuluð þið komast að raun um að lifandi Guð er meðal ykkar og hann mun ryðja Kanverjum, Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum úr vegi ykkar. Sáttmálsörk Drottins allrar jarðar fer nú fyrir ykkur yfir Jórdan.Veljið nú tólf menn úr ættbálkum Ísraels, einn mann úr hverjum ættbálki. Jafnskjótt og fætur prestanna sem bera sáttmálsörk Drottins, sem er Drottinn allrar veraldar, snerta vatn Jórdanar mun vatn árinnar skiptast og vatnið, sem rennur ofan að, standa sem veggur.“
Þegar fólkið hélt af stað úr tjöldum sínum til þess að fara yfir Jórdan fóru prestarnir, sem báru sáttmálsörkina, fyrir fólkinu.
Prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu föstum fótum á þurru, mitt í Jórdan, á meðan allur Ísrael fór yfir ána þurrum fótum, þar til öll þjóðin var komin yfir Jórdan.

Vegna þess að Jesús úthellti blóði sínu megum við nú, systkin,[ með djörfung ganga inn í hið heilaga. Þangað vígði hann okkur veginn, nýjan veg lífsins inn í gegnum fortjaldið sem er líkami hans.Við höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. Göngum því fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni. Höldum fast við játningu vonar okkar án þess að hvika því að trúr er sá sem fyrirheitið hefur gefið.Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka.

Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
Er allt fólkið lét skírast var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gerði bæn sína, að himinninn opnaðist og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.