Mér finnst ótrúlega gott þegar árstíðaskiptin eru að ganga í garð eins og núna þegar styttist í haustið. Sköpunarverk Guðs er einhvern veginn þannig að það gleður mig stöðugt. Sumar, haust, vetur, vor. Þetta er nákvæmlega það sem gerist hjá okkur mannfólkinu. Við vitum t.d. núna að það munu koma svona slagviðris dagar í aðdraganda haustsins en svo munu fallegar hauststillur taka við með allri sinni litadýrð og oftar en ekki veðursælum og yndislegum dögum. Svona er þetta líka í lífinu, það koma alltaf betri dagar í kjölfar slæmu daganna. Það er alltaf von og það er svo dýrmætt að geta haldið í hana.

Það er stundum sagt að við höfum val um allt í lífinu. Ég trúi því að það sé rétt að mörgu leyti, við höfum val um það hvernig við komum fram við fólkið okkar og náungann. Við höfum val um það hvernig manneskjur við viljum vera. Við höfum val um það hvort við erum sönn í því sem við gerum, hvort við sýnum sjálfum okkur og náunganum kærleik. Hvort við erum góðar manneskjur. Síðan eru hlutir sem við höfum ekki val um, við stjórnum því ekki hvort við höfum góða heilsu eða hvort við fæðumst með silfurskeið í munni eins og stundum er sagt. Í sögunni um bersyndugu konuna kemur þetta einmitt svo sterkt fram, hvernig við mannfólkið dæmum aðrar manneskjur. Jesús dæmdi ekki fólk heldur þvert á móti mat hann það eftir verðleikum þess. Öll erum við dýrmæt og mikils virði í augum Guðs. Bersynduga konan í sögunni hafði val og hún valdi að ganga fram fyrir Jesús grátandi án þess að vita fyrirfram hvernig hann myndi bregðast við. Eftir að hún hafði komið fram fyrir hann sagði hann við hana: ,,Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ Hugsið ykkur hvað þetta er stórkostlegt fyrirheit.

Jesús Kristur hafði líka val og hann valdi það alltaf að standa með þeim sem minna mega sín. Hann gerði aldrei manngreinarálit og setti sjálfan sig aldrei á stall gagnvart nokkurri manneskju. Í hans augum voru og eru allir jafnir. Þegar ég er í aðstæðum þar sem ég er ekki viss um það hvernig ég á að bregðast við, þá geri ég það oft að ég velti því fyrir mér hvað Jesús myndi gera í sömu aðstæðum, niðurstaðan er alltaf góð og ef ég geri mitt besta til að haga mér eins og hann gerði þá næst alltaf besta niðurstaðan fyrir alla. Komum fram við hvert annað í kærleika, verum góð við okkur sjálf og fögnum tækifærinu sem Jesús gaf okkur með sinni óbilandi trú.

Sr. Fritz Már

Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“
Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

Davíðsmaskíl.
Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin,
synd hans hulin.
Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð
og ekki geymir svik í anda.
Meðan ég þagði tærðust bein mín,
allan daginn stundi ég
því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér,
lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela)
Þá játaði ég synd mína fyrir þér
og duldi ekki sekt mína
en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“
Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela)
Biðji þig þess vegna sérhver trúaður
meðan þig er að finna.
Þótt vatnsflóðið komi
nær það honum eigi.
Þú ert skjól mitt,
verndar mig í þrengingum,
bjargar mér, umlykur mig fögnuði.

(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn
sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.
Verið eigi sem skynlausar skepnur,
hestar og múldýr;
með beisli og taumi þarf að temja þær,
annars koma þær ekki til þín.
Miklar eru þjáningar óguðlegs manns
en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku.
Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir,
allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)