Hvernig í ósköpunum getum við trúað því sem stemmir ekki við það sem við teljum að geti gerst? Það er ekki hluti af upplifun okkar mannanna að fólk rísi upp frá dauðum. Þegar lærisveinum Jesús var sagt að hann væri upprisinn trúðu þeir ekki. Það var ekki fyrr en hann birtist þeim sjálfur að þeir trúðu.

Lærisveinarnir voru ólíkir en þeir höfðu lært kærleika og góðvild af Jesú. Sennilega hafa þeir líka verið umburðarlyndir og þolinmóðir. Það hefur án vafa reynt á þá þegar þeir heyrðu að Jesú væri ekki dáinn þrátt fyrir að þeir hefðu upplifað allt annað með eigin augum.

Vafalaust hafa þeir velt ýmsu fyrir sér þegar þeir heyrðu fyrst af upprisunni frá Maríu. Líklega hafa þeir sett þetta allt saman í samhengi við orð Jesú en samt gátu þeir ekki trúað. Einn lærisveinanna gat ekki trúað án þess að fá að upplifa og það fékk hann að gera, hann fékk að finna sár Jesú með eigin höndum þegar þeir hittust. Hann hefur án vafa spurt sjálfan sig krefjandi spurninga áður en hann fékk að upplifa með eigin skyngfærum. Líklega hefur hann efast um trú sína, en það er einmitt oft sagt að það sé eðlilegt að efast. Guð er ekki háður því að fólk sé opið fyrir honum, eða hvort fólk trúi eða ekkiþ

Það var samt bara einn í lærisveinahópnum sem þurfti að fá að þreifa á sönnunum til að trúa. Jesús hjálpaði honum að finna leiðina, hann gaf honum af sér með óskilyrtum kærleika. Eitt það mikilvægasta í lífinu er að vera sönn í því að vera þau sem við erum. Læra að þekkja veikleika sína og styrkleika, læra að þekkja eigin mörk og mörkin sem lífið setur. Læra að lifa með öðrum manneskjum í kærleika. Læra að treysta, læra að trúa.  Og við getum gefið það sem við höfum áfram til þeirra sem efast, leyft þeim að þreifa á trúnni og þannig að kynnast honum sem kenndi okkur svo mikið um kærleikann.

 

Lofgjörðarlag dagsins er In Christ Alone flutt af BYU Vocal Point. Aðeins í Kristi jesú er von mín. Hann er ljós mitt og styrkur: https://www.youtube.com/watch?v=WQCpxt0XRoc

 

 

Lofsöngur Davíðs.
Ég tigna þig, Guð minn og konungur,
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Ég vegsama þig hvern dag
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
veldi hans er órannsakanlegt.
Kynslóð eftir kynslóð vegsamar verk þín,
segir frá máttarverkum þínum
og dýrlegum ljóma hátignar þinnar:
„Ég vil syngja um dásemdir þínar.“
Þær tala um mátt ógnarverka þinna:
„Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“
Þær víðfrægja mikla gæsku þína
og fagna yfir réttlæti þínu.

Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.
Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki.
Eftir þetta birtist Jesús í annarri mynd tveimur þeirra þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. Þeir sneru við og kunngjörðu hinum en þeir trúðu þeim ekki heldur. Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn.

En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.