Mig langar að biðja þig að loka augunum. Sjáðu fyrir þér tvo menn. Báðir standa fyrir framan ísilagt vatn, en á sitthvorum staðnum í landinu. Í einu tilvikinu er vatnið gegnfrosið, alveg niður í botninn og það er alveg öruggt að ganga út á vatnið, ísinn mun halda. En á vatninu sem hinn maðurinn stendur fyrir framan er bara þunnt lag af ís sem liggur ofan á vatninu og ísinn mun gefa sig ef þú reynir að ganga út á vatnið.
Báðir mennirnir þurfa þó að gera einmitt það: þeir þurfa að ganga út á ísinn. Annar mannanna, sá sem stendur fyrir framan þunna ísinn, efast ekki um að hann muni halda honum. Hann er sannfærður að ísinn sé öruggur og treystir því að hann muni ekki bresta. Án þess að hika tekur hann eitt skref út á vatnið, og ísinn brestur um leið. Hinn maðurinn, sá sem stendur fyrir framan þykka ísinn, er ekki eins öruggur. Hann er óttasleginn og þorir ekki að stíga út á ísinn, því hann hefur litla sem enga trú á að hann muni halda honum. Hann lokar augunum og hægt og varlega tekur hann eitt skref út á vatnið. Ísinn heldur. Hvað heldur þú að ísinn geti mögulega táknað í þessari sögu?
Hvað er það sem þú trúir á, sem þú byggir líf þitt á? Mín persónulega reynsla er sú að Jesús er ísinn sem heldur. Ísinn sem er óhætt að treysta á. Sem heldur okkur uppi, jafnvel þegar við höfum kannski litla sem enga trú á því að hann muni gera það. Trú er það sem við treystum á, sem við vonum á. Að trúa á Jesú þýðir að við treystum honum.
Að við treystum því að hann sé þarna og grípi okkur þegar við föllum. Þegar við verðum fyrir áföllum í lífinu og göngum í gegnum erfiðleika. Úr fjarlægð virtust vötnin kannski alveg eins sem mennirnir stóðu frammi fyrir. Þeir gátu ekki skorið úr um hvort ísinn væri öruggur að stíga út á öðru vísi en að reyna það. Það var fyrst þegar mennirnir tóku skrefið út á ísinn að þeir komust að hinu sanna. Og þá fór það ekki á milli mála hvorum væri óhætt að treysta.
Þannig er það líka með trú okkar á Jesú. Það er fyrst þegar við höfum prófað að ganga út á ísinn, að treysta honum, að trúin getur vaxið og orðið að öryggi. Jesús vill að við trúum á hann og að við treystum honum. En það er ekki alltaf auðvelt. Það er svo margt sem getur gerst í lífinu okkar sem fær okkur kannski til að efast. Efast um Guð og kærleika hans til okkar, og hvort það sé raunverulega hægt að treysta á hann. En í hvert sinn sem við göngum út á ísinn og upplifum að Jesús er til staðar fyrir okkur þegar við þörfnumst hans þá vex trúin okkar og verður sterkari. Og ólíkt ísnum sem einn dag bráðnar, þá er Jesú alltaf sá sami.
Guð er Guð sama hvað. Við getum alltaf treyst á hann. En það að við trúum og treystum Guði þýðir ekki að við munum aldrei upplifa erfiðleika. Eitthvað sem við eigum erfitt með að skilja. Og okkur getur liðið einsog Guð sé ekki til staðar fyrir okkur þegar við þörfnumst hans mest. En það er þá sem hann heldur okkur uppi. Við höfum bara ekki fattað það ennþá. Það getur líka verið eitthvað í lífinu okkar sem gerir það að verkum að við sjáum ekki Guð, að við trúum ekki á hann. En það breytir því ekki hver Guð er. Sólin er þarna þó við sjáum hana ekki alltaf á himninum. Trúin okkar getur kannski verið missterk, það munu koma dagar þegar það er erfitt að trúa því að Guð elski okkur eða að hann sé yfirhöfuð til, en og það munu líka koma dagar þegar sólin skín og við finnum greinilega fyrir nærveru Guðs í okkar lífi. En sem betur fer þá er þetta ekki allt undir okkur komið. Jesús er ísinn sem heldur okkur uppi, óháð því hvað er að gerast í lífinu okkar.
Sr. Helga Kolbeinsdòttir
Davíðsmaskíl.
Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin,
synd hans hulin.
Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð
og ekki geymir svik í anda.
Meðan ég þagði tærðust bein mín,
allan daginn stundi ég
því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér,
lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. (Sela)
Þá játaði ég synd mína fyrir þér
og duldi ekki sekt mína
en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“
Og þú afmáðir syndasekt mína. (Sela)
Biðji þig þess vegna sérhver trúaður
meðan þig er að finna.
Þótt vatnsflóðið komi
nær það honum eigi.
Þú ert skjól mitt,
verndar mig í þrengingum,
bjargar mér, umlykur mig fögnuði.
(Ég vil fræða þig, vísa þér veginn
sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.
Verið eigi sem skynlausar skepnur,
hestar og múldýr;
með beisli og taumi þarf að temja þær,
annars koma þær ekki til þín.
Miklar eru þjáningar óguðlegs manns
en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku.
Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir,
allir hjartahreinir menn hrópi af gleði.)
Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.
Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“
Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“