Kannski er það eitt af stærstu viðfangsefnum okkar hversu mikið það er sem við getum valið úr í lífinu. Svo margar leiðir sem bjóðast okkur, við leitum stöðugt að nýjum upplifunum, helst einhverju sem er meira og stærra en það sem við gerðum síðast.. Þannig erum við stöðugt að taka taka upp eitthvað nýtt og láta það gamla renna okkur úr greipum.

Við höfum áhyggjur af mismunandi hlutum í lífinu, stundum er það eitthvað sem við höfum upplifað og erum hrædd um að muni gerast aftur sem veldur áhyggjum, og stundum höfum við áhyggjur af einhverju smávægilegu. Ég trúi því að Guð vilji að við séum opin og djörf og að við treystum honum fyrir okkur, leyfum honum að taka við því sem veldur okkur áhyggjum. Trúin á Jesú getur gefið okkur hugrekki til að fara út og mæta hverju því sem er að gerast í kringum okkur og takast á við það í trausti á Jesú Krist. Enda sagði Jesús okkur að hann hefði allt vald á himni og jörðu.

Sumir eru svo heppnir að fá að þekkja Jesú og finna fyrir því að Guð er alltaf nálægur og mikilvægur í lífinu, það er mikilvægt að hlúa að slíku.

Hvernig get ég gert huga minn og hjarta móttækileg fyrir orði Guðs, svo að það nái að festa þar rætur og hafa áhrif á mig? Hvernig get ég varðveitt orð Guðs í hjarta mínu? Það er í rauninni sú spurning sem mestu skiptir. Það getur verið gott að lesa Guðs orð reglulega. Þannig nær það að festa rætur í huga okkar og bera ávöxt.

Þeir sem stunda garðyrkju eða aðra jarðrækt vita hversu mikilvægur jarðvegurinn er fyrir það sem er gróðursett, hann þarf að uppfylla allskonar skilyrði fyrir mismunandi plöntur, rakastig, vökvun, hitastig, næringu. Sama er með hjarta okkar ef eitthvað á að fá að vaxa í því þarf það að vera vel undirbúið. Trúin sem vex í hjarta þínu verður þín trú rétt eins og sagan þín verður þín saga sem hefur jafnframt áhrif á líf annarra.

Trúin okkar getur gefið von og styrk sem hvoru tveggja er ómetanlegt að hafa í lífinu og þar með getum við gefið af okkur til annarra á jákvæðan uppbyggjandi hátt í kærleika Guðs. Einfaldlega vegna þess að það er svo mikilvægt að viðhalda kærleika Krists í heiminum.

Guð breytist ekki, hann gleymir þér ekki vegna þess að hann hefur fengið eitthvað nýtt og skemmtilegt að gera. Guð skapaði þig í sinni mynd, fullkomna manneskju með öllum þínum kostunm og göllum og hefur elskað þig frá fyrstu tíð. Og mun alltaf vera nálægt þér.

 

 

Eins og hindin þráir vatnslindir
þráir sál mín þig, ó Guð.
Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,
hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?

Því brýni ég ykkur, systkin,[ að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.
Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.

Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.