Hefurðu velt því fyrir þér hvort og hvernig þú trúir? Margir velta því fyrir sér og eiga gjarna samtal um trúmál við þau sem eru opin fyrir slíku samtali. Önnur ræða trúmál helst ekki, segja þau einkamál og vilja eiga sínar trúarpælingar í einrúmi.
Hvernig geturðu komist að því hvort þú trúir, sért kristinn eða trúir á Jesús, son Guðs, orð hans og verk?
Það er kannski engin ein töfralausn við því hvaða leiðir eru færar í þeirri trúarglímu manneskjunnar. Mannkyn hefur leitað svara á marga vegu og í guðspjalli dagsins (Jóh. 11.1,3, 17-27) fáum við innsýn í hugarheim og trúarpælingar Mörtu vinkonu Jesú. Við fáum að fylgjast með því hvernig samtal hennar við Jesú leiddi hana til þeirrar niðurstöðu að hún játaði trú sína á einlægan og yfirvegaðan hátt.
Játning Mörtu kom ekki upp úr þurru. Þessi mikla verkakona sem verkstýrði heimili þeirra systkina Maríu og Lasarusar, var önnum kafinn húsráðandi. Með yfirfulla daga af verkefnum sá hún sig nú knúna til að staldra við, mitt í sorginni, og gefa sér örlítinn tíma fyrir samtal um trú.
Marta sýnir frumkvæði og tekur fyrsta skrefið og fer á móti Jesú. Marta virðist vera reið og ásakar Jesús um vanrækslu. Mörg eigum við svipaða reynslu er sorgin sveipar lífið, að finnast Guð alls ekki vera nærri. Finnast Guð hafa yfirgefið okkur og ekki borið umhyggju fyrir lífi okkar eða ekki verndað okkar. Finnast Guð hafa brugðist á einhvern hátt.
Marta er ekkert að skafa utan af því og orðar vonbrigði sín beint við Jesús. Hún gengur meira að segja svo langt að ásaka Jesú um dauða bróður síns. Þetta er þekkt, að ásaka Guð um að bera ábyrgð á dauða þeirra sem við elskum. Marta er þar, hún ásakar Jesús fyrir dauða bróður síns.
Jesús svarar henni með vonarorðum trúarinnar: Bróðir þinn mun rísa upp. (Jóh. 11.23) Þetta segist Marta vita mæta vel og bætir um betur og áfram heldur samtalið með því að Jesús segir henni hver hann er.
Sagan af þeim systrum Mörtu og Maríu er mörgum kunn. Þar sem Marta þeytist um og þjónar til borðs og María situr við fætur Jesú og hlýðir á spekiorð sem féllu af vörum frelsarans. (Lúk. 10.38-42)
Marta pirruð yfir meintri leti systur sinnar og kvartar sáran.
Marta hefur í gegnum aldir fengið það hlutverk að vera táknmynd trúarverkanna, kærleiksþjónustunnar og náungakærleikans og María fengið það hlutverk að vera táknmynd trúariðkunar, bænar, íhugunar og jafnvel trúfræðslu.
Þessi skipting milli þeirra systra er ágæt svo langt sem hún nær, en hún segir ekki alla söguna.
Játning Mörtu og trúarspjall hennar við Jesús sýnir aðra mynd af Mörtu . Þarna fáum við að sjá Mörtu sem hugsandi manneskju sem leyfir sér að efast og orða það. Þorir að ganga inn í jafningjasamtal við Jesú þar sem hún felur ekki visku sína. Það samtal leiðir að lokum til þeirrar fallegustu játningar sem fyrir finnst í biblíunni: Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. (Jóh. 11.27)
Þarna birtist okkur Marta sem bæði þjónar í trú og iðkar guðfræði og kemst að niðurstöðu um trúarafstöðu sína.
Getur Marta verið þér vegvísir í þinni trúarvegferð?
Sr. Arna Grétarsdóttir
Helgigönguljóð.
Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.
Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa.
Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.
Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. Nú gerðu systurnar Jesú orðsending: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“
Þegar Jesús kom varð hann þess vís að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm[ þaðan.
Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn.
Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“
Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“
Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“