Fyrir skömmu var jarðsungin í lúthersku kirkjunni okkar hér í Genf, eldri kona sem hafði verið heilsulaus síðustu ár lífs síns og um nokkurt skeið þjáðst af dementíu. Hún þekkti engan lengur og þau sem stóðu henni næst voru líka viss um að hún þekkti ekki sjálfa sig heldur – svo mikið hafði sjúkdómurinn grimmi breytt henni frá því hún var og hét.

Í útförinni var talað um þetta erfiða ferli af hreinskilni og næmni. Ritningin  sem lagt var út af, og talaði sérstaklega til mín á þessari stundu, voru orðin í Jesaja þar sem Drottinn hughreystir þjóð sína, sem finnst Guð hafi gleymt sér og láti þjáningu og erfiðleika hennar sem vind um eyru þjóta. Svarið sem Guð gefur er þetta:

“Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki.” (Jes 49.15).

Samlíkingin um móðurina sem getur, þrátt fyrir allt, gleymt barninu sínu (eins og gamla konan sem við vorum að kveðja), og Guð sem gleymir aldrei, tók þarna á sig alveg nýja mynd í huga mínum. Á sama tíma, tók ég nefnilega þátt í vinnu í söfnuðinum okkar, að máli sem vafðist – og vefst eiginlega ennþá – fyrir okkur, hvernig best sé að nálgast og leysa.

Nýverið tók hér gildi í Sviss, eins og annars staðar í Evrópu, löggjöf um öflun, vistun og nýtingu persónuupplýsinga. Eins og ótal önnur félagasamtök, stendur kirkjan okkar frammi fyrir því að þurfa að geta sýnt fram á að þær upplýsingar sem hún aflar og geymir, sæmræmist nýju persónuverndarlögunum. Eins og gengur, þurfum við að breyta ýmislegu í vinnulagi, en fyrst og fremst geta sýnt fram á að þær upplýsingar sem við höldum um fólkið okkar, samræmist tilgangi og markmiði samfélagsins sem það tekur þátt í af eigin vilja.

Við höfum legið yfir lagatextum og aðferðafræði við upplýsingavernd og þar á meðal um hvað verður um upplýsingar um fólk sem á einhverjum tíma tók þátt í kirkjunni okkar en hefur flutt sig um set. Þessi hópur er fyrirferðamikill í gögnunum, því kirkjunni okkar tilheyrir fyrst og fremst fólk sem er tímabundið búsett í Genf og flytur síðan í burtu í nýrri þjónustu. Safnaðarbarnavelta er því mjög há!

Hvað á að gera við gamlar símaskrár, gamlar ljósmyndir, gamlar skráningar sem kirkjan geymir frá fyrrverandi meðlimum sínum? Hvað með það sem hefur farið á netið og er þar með að eilífu varðveitt? Er það réttur okkar að fá að þurrkast út og gleymast?

Það var í þessu samhengi sem við rákumst á klausu í reglugerðunum í kringum innleiðingu nýju persónuverndarlaganna. Hún vísar í að “rétturinn til að gleymast” er ekki algildur. Þetta virðist taka inn í myndina að allar manneskjur skilja eftir sig fótspor þar sem þær koma við, og það er ekki hægt að ganga út frá því að þau máist öll út.

Þessi litla grein virtist eiginlega vera einskonar Deus ex machina – viðurkenning á því að líf okkar allra er minnistætt og þurrkast ekki út, þótt við hverfum af sviðinu.

Nú þegar allra heilagra messa er á næsta leyti, minnumst við einmitt þeirra sem hafa skilið eftir spor sín í okkar eigin lífi, þeirra sem hafa kvatt og lifa í ljósinu eilífa hjá Guði. Við minnumst og þökkum, því þau sem við elskum og erum ekki með okkur lengur, eru ekki gleymd. Við minnumst og þökkum að þótt að við séum öllum gleymd og ómerk, þá gleymir Guð okkur samt ekki. Guð sem segir við okkur: “Ég hef rist þig í lófa mér, múra þína hef ég sífellt fyrir augum” (Jes 49.16).

Sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir

Eftir andlát föður síns hugsuðu bræður Jósefs: „Vera má að Jósef beri illan hug til okkar og endurgjaldi okkur allt hið illa sem við höfum gert honum.“ Þess vegna sendu þeir Jósef eftirfarandi skilaboð: „Áður en faðir þinn dó bað hann okkur að segja við þig: Fyrirgefðu bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, það illa sem þeir gerðu þér. Þess vegna biðjum við þig að fyrirgefa þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði, þá synd sem við höfum drýgt.“ Við þessi orð þeirra brast Jósef í grát.
Þá komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: „Við erum þrælar þínir.“ En Jósef sagði við þá: „Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna. Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra.

Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa. Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.
Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til ykkar allra. Ég hef ykkur í hjarta mínu og þið eigið öll hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og eins er ég er að verja fagnaðarerindið og sannfæra menn um gildi þess. Guð er mér þess vitni hvernig ég þrái ykkur öll með ástúð Krists Jesú.
Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists, auðug að þeim réttlætisávexti sem Jesús Kristur kemur til leiðar Guði til lofs og dýrðar.

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“
Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.
Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.
Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“