Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér. Myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum en Drottinn er runninn upp yfir þér og dýrð hans birtist yfir þér. Þjóðir munu stefna á ljós þitt og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér. (Jesaja 60. 2-3)

Síðasti sunnudagur eftir þrettánda stendur á mærum jólatímans og föstutímans. Ummyndunin á fjallinu birtir okkur í þessu orði spámannsins Jesaja kjarnann í boðskap jóla- og þrettándatímans, til undirbúnings fyrir föstutímann. Dýrð Drottins birtist. Himneskt ljós eilífðarinnar lýsir yfir jörðina og á jörðina. Guð opnar dyr á milli tímans og eilífðarinnar.  
Hinn eilífi Guð stígur inn í hið tímanlega líf jarðarbarna. Ljós Guðs dýrðar lýsir upp nyrkrið.

Yfir barninu í jötunni opnuðust himnarnir með lofsöng englaskarans. Yfir tilbeiðslu vitringanna úr Austurlöndum leiftraði stjarna Guðs leiðsagnar. Yfir skírn Jesú í ánni Jórdan hljómaði raust Guðs. Á fjalli ummyndunarinnar opnaðist eilífðin umhverfis Drottin og í honum. Í uppbyggingu kirkjuársins markar síðasti sunnudagur eftir þrettánda lok jólatímans og upphaf föstutímans. Undirbúningstíminn er á enda. Þjáningarvegur Drottins að krossinum, krossferill hans, liggur framundan.

Ummyndunin á fjallinu sýnir í einni andrá hið liðna og hið ókomna. Móse og Elía birtast sem sendimenn Guðs dýrðar frá hinum gamla sáttmála, Gamla Testamentisins, og lærisveinarnir sáu Krist birtast í dýrð hins nýja sáttmála Nýja Testamentisins, sem hinn upprisna Drottinn. Þess vegna  laukst leyndardómur ummyndunarinnar ekki upp fyrr en eftir upprisuna.

Hinn eilífi Guð stígur inn í tímann. Ljós lífsins tekur valdið frá dauðanum. Það stígur niður í dimman dal dauðans og leiðir hin dánu upp þaðan inn í ljós dýrðarinnar.
Í ummynduninni er Kristur spegilmymd ljóssins frá dýrð Guðs. Og við, systur og bræður Drottins, berum í okkur og með okkur endurskin hins ójarðneska ljóss Guðs. Páll skrifar: 
En við sjáum öll með óhjúpuðu andliti dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar (2. Kor. 3.18).

Allar tilraunir til að bera saman hið jarðneska og ójarðneska, eða öllu heldur yfirjarðneska, hljóta að mistakast. Samt getum við ekki látið vera að bera saman. Mandlan sem er umhverfis Krist á mörgum íkonum og listaverkum kirkjusögunnar er tilraun kirkjulistarinnar til að sýna það sem ekki er hægt að sýna. Mandlan er tákn um hið ósegjanlega og ósýnilega sem við erum þó hluti af og er umhverfis okkur. Við vitum hvað við erum í ljósi þess, en ekki hvað við verðum um síðir: Ritað er: 
Þið elskuðu, nú þegar erum við Guðs börn og það er enn þá ekki orðið bert hvað við munum verða. Við vitum að þegar hann birtist, þá verðum við honum lík því að við munum sjá hann eins og hann er (1. Jóh. 3.2).

Kristur Jesús, sem við sjáum senn í ljóma efsta dag, er þú reisir oss frá dauðum upp  til lífs með gleðibrag. Líkt og sól í loga glói ljómar heilög ásján þín er þú stígur fram á foldu  (Jobsbók 19:25) frelsari í dýrðarsýn!

Sr. Kristján Valur Ingólfsson

Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki. Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“ Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð. Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ Enn fremur sagði Guð við Móse: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: Drottinn, Guð feðra ykkar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, sendi mig til ykkar. Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.

Ég geri ekki eins og Móse sem setti skýlu fyrir andlit sér til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á ljóma þess sem var að hverfa. En hugur þeirra varð sljór. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt því að Kristur einn lætur hana hverfa. Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra hvenær sem lesið er úr lögmáli Móse. En „þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt“. Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. En við sjáum öll með óhjúpuðu andliti dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.