Jæja nú byrjar það!
Eða hvað, hvenær byrjar það og endar?
Er ekki bara allt að falla í skorður?
Fríið búið og þvottahúsið stútfullt.
En sem betur fer er þvottahúsið griðastaður. Það er eitthvað svo róandi við að setja í vél og taka úr vél, hengja upp, teygja og toga þvottinn og brjóta saman í algerum friði. Þú kannski tæmir þvottahúsið og áður en þú ert búin að segja setninguna: ,,Heldurðu ekki bara að þvottahúsið sé tómt!” Þá er nýr haugur mættur. Segir auðvitað dálítið um ofgnóttina af fatnaði og taui á íslensku heimili en hefur um leið það gildi að minna á að ekkert endar í raun og byrjar e.t.v. varla heldur. Svona eins og hringur, flóð og fjara, sólarupprás og sólarlag.
Í fyrri sköpunarsögunni kemur Guð og tekur vel til. Aðgreinir og flokkar, kemur á skikki og reglu. Eins og konur og karlar gera í þvottahúsum flesta daga. Hún skapar með orði og setur orð á veruleikann.
Guð sem er eins og frumkraftur utan sköpunarinnar sjálfrar en þó alltumlykjandi, birtir sköpun sem heldur áfram að skapa. Gras sem heldur áfram að vaxa, fellur og vex svo aftur, hringrás lífs og hrörnunar sem við reynum á eigin kroppum.
Guð sem kemur inní tíma og rúm til þess að við upplifum kærleika. Upplifum að tengslin við kærleika er það sem frelsar.
Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð er saga sem segir: Þú ert manneskja sem ert í tengslum og ert háð öðrum manneskjum sem allar eru háðar jörðinni og hún þeim. Að tengsl Guðs og heims eru þar sem kærleikurinn er að verki. Segja þú berð ábygð og Guð er með þér í sköpun þinni.
Taktur sögunnar er að það verður ljós og líf.
Upphaf en þó um leið hringrás.
Tengsl og jafnvægi.
En því er ekki að neita að oft verðum við þreytt á hringferlum.
Við nennum ekki að tala alltaf um það sama. Tala um hvernig stendur á því að enn einn pólitíkusinn þekkir ekki sinn vitjunartíma. Nennum ekki að tala um að enn eitt sinnið er verið að senda manneskjur úr landi í ömurlegar aðstæður. Nennum ekki enn eitt árið að kvarta yfir því að börnum sé mismunað eftir efnahag, að þau fái ekki öll skólagögn í skólanum eða geti ekki öll stundað íþróttir. Nennum ekki lengur að segja neitt yfir mengun stóriðju og svo framvegis
En við verðum.
Partur þess að lifa von er að setja í enn eina vélina jafnvel þó við vitum að sú næsta sé ekki langt undan. Að sleppa plastpokanum þó, eða einmitt vegna þess að við vitum að höfin séu full af plasti.
Mótmæla brottflutningi fólks sem þarf á okkur að halda.
Taka þátt í opinberri ákvarðanatöku.
Vera virk og ábyrg, þó það séu sömu málefnin misseri eftir misseri sem tekist er á við.
Sköpun er sístætt verkefni, verkefni þar sem við erum samverkafólk Guðs og náttúru. Þar sem við erum sjálf að skapa alla daga með öllu sem við gerum.
Svo má ekki gleyma að Guð hvílir sig einn dag vikunnar. Því hvíldin er það sem heldur óreiðunni innra með okkur í skefjum og hvíldin er órjúfanlegur hluti sköpunarverksins. Sköpunin heldur áfram að skapa án okkar. Fiskurinn heldur áfram að hrygna og gróðurinn heldur áfram með sitt vaxtarferli líf, hrörnun, dauði og endurfæðing.
Það varð kvöld og það varð morgun. Tími sem í sköpunarsögunni rammar inn dag og nótt, árstíðir og ár, tími sem virðist hraða sér með aldrinum.
,,Mamma mín ég er kominn í háskóla og þú ert enn að þurrka mér um munninn”, var sagt við matarborðið í vikunni því ég alveg ósjálfrátt þurrkaði piltbarninu um munninn. Ákveðin tímalína en þó um leið hringrás því áður en langt um líður verður hann vonandi farinn að þurrka mér um muninn.
Og svo kemur næsti dagur.
Og enn ein þvottavélin sem betur fer.
Amen.
Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur í Langholtskirkju.
1Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 2Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.
3Þá sagði Guð: „Verði ljós.“
Og það varð ljós.
4Guð sá að ljósið var gott og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. 5Guð nefndi ljósið dag en myrkrið nótt.
Það varð kvöld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.
En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína. Nú er svo komið að mér verður fórnfært og tíminn er kominn að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.
Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.
Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.