Jesús segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs.“
Lítill drengur tók þátt í verkefni á leikskólanum sínum, með aðstoð kennarans setti hann lítið fræ í mold og var honum sagt að ef sáningunni væri vel fylgt eftir, vökvað reglulega og hlúð að þá myndi smátt og smátt vaxa planta upp úr moldinni – og ef allt gengi vel þá myndi plantan bera ávöxt. Þetta var paprikuplanta og þegar hún var byrjuð að vaxa uppúr moldinni varð drengurinn spenntur að sjá hvort það kæmu ekki paprikur á stilkana.
En svo einn daginn sá hann að plantan var farin lúta höfði og jafnvel fölna lítið eitt og fæst blómin barnanna á leikskólanum virtust dafna nægilega vel til að geta borið ávöxt. Hann fékk því leyfi til að taka plöntuna með sér og fór meða hana í fóstur til ömmu sinnar sem var mikil ræktunarkona.
Hann fylgdist svo reglulega með plöntunni og nú brá svo við að hún byrjaði að dafna aftur og eftir tilskilinn tíma bar hún ávöxt og drengurinn bragðaði á paprikunni. Hann sáði og hafði nú uppskorið – með hjálp reynslumikilla handa og viskuríks hugar.
Við þurfum öll að fást við ræktunarstörf í lífinu – janfvel þó við setjum aldrei fræ í mold með bókstaflegum hætti. Og það sem er hvað erfiðast í ræktun er okkar innri garður – og sú ræktunarvinna og umhirða tekur alla ævi, allt frá því við lærum ung hvað það er að sá fræi í mold, sjá vöxtinn sem verður af litlu fræi og uppskera síðan eftir góða ræktunarvinnu. Eða læra af mistökum ræktunar-innar þegar ekkert kemur upp af fræinu.
Það fer allt eftir því hvernig við sáum og hvaða vinnu við erum tilbúin til þess að leggja í ræktunarvinnuna. Ef við sáum ríflega, hlúum vel að vaxtarsprotunum svo þeir beri ríkulegan ávöxt, þá munum við og ríflega uppskera. Og þá sitjum við ekki á ávextinum, því hluti af ræktunarvinnunni er að miðla honum til annarra – ekki af ólund heldur gleði hjartans. Í því felst í raun ræktunarvinna lífsins, að rækta það fræ sem Guð gefur, fræ trúarinnar að við uppskerum ávexti andans og miðlum þeim til annarra í kærleika.
Jesús hvetur okkur til þess að hefjast handa á ökrunum hér og nú, því þeir séu þroskaðir til uppskeru – og þau verk sem hann vill að við vinnum eru verk kærleikans, hvort heldur sem litið er til þeirra sem eru hjálpar þurfi í kringum okkur eða til umhverfis jarðarinnar.
Jesús vill að við fylgjum fordæmi hans; hann vill að við verðum samverkafólk Guðs í því stóra verki að vinna að framgangi hins góða og uppbyggilega í heiminum – vera útrétt hönd hins fórnfúsa og óeigingjarna kærleika Guðs í brothættum og fallvöltum heimi. Páll postuli áttar sig á þessu hlutverki og hvetur jafnframt til þess er hann segir: „Því að samverkamenn erum við, Guðs akurlendi. Guðs hús eruð þið.“
Þar er vel að orði komist, því sem samverkafólk Guðs erum við hans akurlendi og berum ávöxt sem slík. Við erum Guðs hús, við erum kirkjan að verki í heiminum.
En við erum jafnframt eins og litli drengurinn í fyrsta ræktunarverkefninu – við þurfum handleiðslu og hvatningu við verkið og þá munum við uppskera. Við ræktum lífið og Guð gefur vöxtinn og ávöxtinn sem við fáum að njóta – því réttlæti hans varir að eilífu.
Séra Bragi J. Ingibergsson
Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.
Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn. Sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu. Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.
Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“