Ég fylgdist með vini mínum ganga pílagrímsveginn frá Portó til Santiago de Compostela um daginn. Sjálf gekk ég þessa leið fyrir nokkrum árum. Það urðu margir undrandi þegar ég valdi þá leið því að þekktasta leiðin liggur frá suður Frakklandi og í gegnum norður Spán. En það eru margar leiðir merktar til Santiago de Compostela og enn fleiri ómerktar því að pílagrímsganga hvers og eins hefst við húsdyrnar þegar lagt er af stað. Algengar gönguleiðir voru merktar snemma á öldum en þær lágu meðal annars frá Portúgal, Suður Spáni eða Frakklandi. Vegurinn sjálfur er kallaður Camino, sem þýðir einfaldlega vegur á spænsku. Þegar við göngum veginn og mætum öðrum pilagrímum er jafnan kvaðst með orðunum Bon Camino! Sem gæti útlagst: Góðan göngu, eða gangi þér vel á Veginum. Algeng spurning þegar við mætum fólki á þessari göngu er: Hvers vegna ert þú á Veginum? Og svörin eru mismunandi. Stundum fékk ég svar á borð við: Af því að hann er þarna. En algengara var þó að heyra að fólk væri að íhuga, biðja, leita.

Iðulega var eitthvað í lífi þess sem olli því að það vildi draga sig í hlé og leita svara. Og þá var gott að ganga. Margir gengu í bæn, eldri hjón sem ég hitti gengu með bænir vina sinna til að leggja fram fyrir Drottinn í Santiago de Compostela. Santiago þyðir einfaldlega Heilagur Jakob og vísar til Jakobs Zebedeussonar, sem var einn af postulum Jesú. Helgisagan segir að hann hafi farið til Galisíu á norðvestur Spáni til að boða Krist, krossfestan og upprisinn. Síðar fór hann aftur til Jerúsalem en var þá líflátinn, var píslarvottur fyrir trú sína. Lærisveinar hans fluttu þá lík hans til Spánar og það var grafið þar sem nú er Santiago de Compostela. Í kirkjunni íhugum við ákveðna texta árið um kring og í raun má segja að við flytjum heila sögu, lifum okkur inn í sögu á hverju ári þar sem hver tími hefur sitt þema. Jólin hafa ákveðna lestra sem og fastan, páskar, hvítasunna og tíminn þar á milli. Þessa dagana eru lesnir textar sem vísa til þess þegar Jesús kveður lærisveina sína og minnir á að þeir séu ekki einir, að andi Guðs muni vísa þeim Veginn áfram. Jakob Zebedeusson lifði þessa tíma. Á tíma Jakobs, það er að segja við upphaf kristinnar kirkju var ekki talað um hina kristnu, eða kirkjuna, heldur Veginn og þá sem fylgdu þessum vegi (Postulasagan 9:2; 18:25; 19:9, 23; 24:14, 22).

Vegurinn var í raun Kristur, sem sagði: Ég er vegurinn, sannleikur og lífið. Að fylgja Veginum var að lifa samkvæmt boðum hans. Og það gerðu fylgjendur Vegarins meðal annars með því að iðka samhjálp, deila eigum sínum með þurfandi, og með því að boða fagnaðarerinið um Krist, um það að Guð leiti þín og allra manna og að lífið sé sterkara en dauðinn. Lærisveinarnir, karlar og konur, höfðu fengið kraft og djörfung til að boða þetta fagnaðarerindi, jafnvel þó að sú leið gæti leitt þau til dauða, líkt og gerðist með Jakob. Því að þegar Jesús var krossfestur voru lærisveinar hans, fylgjendur hans hræddir, földu sig, óttuðust að yfirvöld kæmu næst eftir þeim. Svo er eins og eitthvað hafi gerst, einhverjar stíflur brostið, einhverjar ár verið brúaðar, vegir lagðir frá Jerúsalem út í heim. Brautir krafts og djörfungar. Og þá djörfung tengjum við anda Guðs, sem við köllum Heilagan anda. Innblasin þeim anda varð venjulegt fólk boðendur orðsins, sendir af Guði út um heim. Með því að fylgja veginum má segja að þeir hafi opnað leiðina fyrr öðrum. Verið Vegurinn. Pílagrímsganga er ganga i trú.

Þegar ég gekk til Santiago fann ég hvernig hver hindrun fékk mig til að íhuga nýja hluti, meta hið sjálfsagða, þakka það sem ég hafði. Um leið varð ég meðvituð um það að ekkert er sjálfsagt, að margir líða skort, mörgum líður illa og ég var minnt á að hlutverk mitt sem kristinnar manneskju er að fylgja Veginum. “Drottinn, lát mig vera farvegur friðar þíns” segir í bæninni sem kennd er við Frans frá Assisi. Við erum kölluð til að ganga Veginn, vera Vegurinn, með því að vera farvegur friðar Guðs, vera hendur Guðs til að líkna og lækna, hugga og styðja. Bon Camino.

Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir

Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. 1Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera því þér hafið verið með mér frá upphafi.

Þetta hef ég talað til yðar svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gera yður samkunduræk. Já, sú stund kemur að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gera af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar til þess að þér minnist þess að ég sagði yður það þegar stund þeirra kemur.