Þessi  einkennilega saga úr 18. Kafla 1. Mósebókar og er lexía þrenningarsunnudagsins.
Þar sem ættfaðirinn Abraham hittir þessa dularfullu náunga.

Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“
(1Mós 18.1-5)

Hin skemmtilega frásaga sem er eins og orðagáta til eilífðarinnar. Abraham sem fær þrjá gesti en eru ávarpaðir sem Herra. Vangaveltur árþúsanda og margra eldhuga og fljúgandi gáfna. Þrír en þó einn og þetta er skemmtileg glíma guðfræðinnar sem birtist í guðspjöllunum þar sem þrenningin er hvergi nefnd á nafn sem þrír en einn. Gestrisnin telur ekki hún upplifir og býður velkomið. Auðmýkt og gjafmildi.

Finna þinn Mamrelund – Gestrisni kirkjunnar er að gera dyrnar víðar og opna á litbrigði veraldarinnar .
Tjá draumana, elskuna og allt það leyndardómsfulla sem trúin býr yfir, gleðina, gæskuna, gildin, húmorinn.

Þrenningin verður svo ljóslifandi þegar staðið er við sindrandi vatn sem hefur verið sett í skírnarskál– allt helgað og þakklætið fyrir lífið og angurværðin fyrir framtíðinni.
Þegar hin hinsta kveðja er við andlát og signt er yfir hinn látna. Skaparinn sem lýkur upp fegurð lífsins og endanleika, Kristur sem umvefur í lífi og dauða og Andinn sem lífgar og gefur kraft á öllum stundum lífsins.
Þetta er ramminn um lífið – samtímann í dag sem áður – líf og lok lífs sem við tölum um í hálfum hljóðum en hin umlykjandi þrenning – fangamark trúarinnar er nærverandi alltaf bæði við upphaf og endir, gleðina og sorgina, eftirvæntinguna og missinn.

En spyrjum okkur líka sjálf – hvað er það í huga okkar sem gerir lífið okkar heilagt –  lífið sem er helgað í skírninni eða í fyrirbæn og umhyggju– allt það sem er hulið spekingum en ljóst þeim sem reynir.
Þessar hátíðir vorsins, hvítasunna og þrenningarhátíð.
Þetta er ekki tækifæri til fortíðarþrár um ætlaða dýrðardaga kirkjunnar. Hver þarfnast þeirra ?
Kristur sem alltaf horfði fram á við og beinir sjónum okkar þangað er boð um draum og leyndardóma sem okkur er ætlað að kanna og munum að þegar okkur hættir að dreyma þá eigum við lítið að bjóða sem kirkja. Drauma sem voru lagðir í okkar hendur til að finna og skapa veröld sem er góð – kjarkmikil eins og hann sem lagði okkur draumana á hjarta.
Eins og allir góðir draumar þá felur þessi draumur í sér að tileinka sér nýtt sjónarhorn til að frelsa okkur frá væntingum samfélagsins. Þeir hjálpa okkur í að sjá að það sem við héldum og hugsuðum að væri fjarlægt liggur í raun innan seilingar. Kannski getum við fundið frelsi frá því sem heftir eða múlbindur. Kannski get ég breytt einhverju og látið gott af mér leiða. Kannski er gildi manneskjunnar ekki fólgið í launamati. Jafnvel er framtíð efnahags okkar eða samfélags eða plánetunnar okkar ekki skorðuð og hoggin í stein nýtingar og efnahagsþróunar.
Gæti verið að Guð sé með mér þó að ný vandamál taki við með hverjum nýjum degi
þar sem “fréttrinar frá í dag verða elligular að morgni eins og Jóhann Hjálmarsson orti í ljóði sínu um hlutverk skáldsins –

“Einkennilegur og miskunnarlaust er tíminn.
Þú veist að á morgun vaknar þú ekki í sömu veröld.
Þú breytir ekki heiminum.
Heimurinn breytir þér”
og um leið og heimurinn breytir okkur þá stöndum við andspænis ábendingum tímans táknum og vandamálum, illsku og kærleika, luktu hjarta og gestrisni, þörf á endurnýjun – nýu ljósbroti í mannanna heim – að setjast að í Mamrelundi og taka vel á móti gestum okkar..
Guði sé lof fyrir leyndardóma, drauma og kraft skaparans, sonarins og andans heilaga í sumrinu sem endranær.

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir

Á dánarári Ússía konungs sá ég Drottin sitja í háu og gnæfandi hásæti og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. Serafar stóðu fyrir ofan hann. Hafði hver þeirra sex vængi: með tveimur huldu þeir ásjónu sína, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir. Þeir kölluðu hver til annars og sögðu:
„Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar,
öll jörðin er full af hans dýrð.“
Við raust þeirra nötruðu undirstöður þröskuldanna og húsið fylltist af reyk.
Þá sagði ég:
„Vei mér, það er úti um mig
því að ég er maður með óhreinar varir
og bý meðal fólks með óhreinar varir
en samt hafa augu mín séð konunginn, Drottin allsherjar.“
Þá flaug einn serafanna til mín. Hann hélt á glóandi koli sem hann hafði tekið af altarinu með töng. Hann snerti munn minn með kolinu og sagði:
„Þetta hefur snortið varir þínar,
sekt þín er frá þér tekin
og friðþægt er fyrir synd þína.“
Þá heyrði ég rödd Drottins sem spurði:
„Hvern skal ég senda?
Hver vill reka erindi vort?“
Ég svaraði: „Hér er ég. Send þú mig.“

Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!
Hver hefur þekkt huga Drottins?
Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?
Hver hefur að fyrra bragði gefið honum
og átt að fá það endurgoldið?
Frá honum, fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, og átti sæti í öldungaráði Gyðinga. Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: „Rabbí, við vitum að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gert þessi tákn sem þú gerir nema Guð sé með honum.“
Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki nema hann fæðist að nýju.

Nikódemus segir við hann: „Hvernig getur maður fæðst þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?“
Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af manni fæðist er manns barn en það sem fæðist af anda Guðs er Guðs barn. Undrast eigi að ég segi við þig: Ykkur ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur.“
Þá spurði Nikódemus: „Hvernig má þetta verða?“
Jesús svaraði honum: „Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist þetta ekki? Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það sem vér þekkjum og vitnum um það sem vér höfum séð en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum. Ef þér trúið eigi þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa er ég ræði við yður um hin himnesku? Enginn hefur stigið upp til himins nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.
Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn svo að hann veiti hverjum sem trúir á hann eilíft líf.