Þeim tímamótum var fagnað í vikunni sem er að líða, að 75 ár eru frá því að síðari heimstyrjöldinni lauk með uppgjöf Þjóðverja. Víða um heim minntust þjóðarleiðtogar þessa en öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna ályktaði um þann lærdóm sem við getum enn dregið af síðari heimstyrjöldinni. Mörgum leiðtogum var kórónuveirufaraldurinn einnig ofarlega í huga með öllum þeim sameiginlegu áskorunum sem faraldurinn hefur og mun hafa í för með sér til framtíðar, fyrir alla heimsbyggðina.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, lýsti áhyggjum sínum af því að kórónuveirufaraldurinn skuli hafa leitt af sér holskeflu haturs og ótta í garð útlendinga og alið sé á ótta fólks og öðrum kennt um það sem aflaga hefur farið.

Það er mjög mikilvægt að við séum vakandi fyrir hatursorðræðu í samfélaginu. Hatursorðræða á ekkert skylt við tjáningarfrelsi heldur er hún ofbeldi. Flest okkar hafa séð meiðandi ummæli frá fólki um einhvern einstakling eða hóp fólks til dæmis á samfélagsmiðlum. Fólk virðist því miður notfæra sér þann vettvang til þess að viðra reiði og gremju, oft af þörf fyrir að kenna öðrum um vandamál sín eða vandamál samfélagsins en sem sjaldnast virðist byggja á skynsemi eða rökhugsun. Sagan hefur kennt okkur að hatursorðræða getur verið undanfari alvarlegra hatursglæpa. Í ræðum og greinum sem birtust í vikunni í tilefni af því að þrír aldarfjórðungar eru frá lokum heimstyrjaldarinnar kom fram að raddir popúlisma, þjóðernishyggju og útlendingahaturs séu háværari nú en oft áður, þar sem fólk vill gera ákveðnar þjóðir eða þjóðfélagshópa að blórabögglum fyrir ástandinu. Það er alvarlegt mál því þetta eru stef sem við þekkjum og vitum hvert geta leitt. Við þurfum að standa vörð um mannréttindi, nú sem aldrei fyrr. Aðeins þannig tryggjum við að sagan endurtaki sig ekki.

Allar gjörðir okkar hafa áhrif, bæði á umhverfi okkar og í gegnum þá miðla þar sem við tjáum okkur. Allt sem við erum, gerum og segjum, hefur áhrif á fólkið sem við erum í samskiptum við. Þess vegna hefur hvert og eitt okkar líka mátt til þess að hafa áhrif til góðs. Ástandið í heiminum er vissulega viðkvæmt og framundan er óvissa. Óvissa kallar óhjákvæmilega fram ugg í fólki, ótta sem getur breyst í reiði. Í Jakobsbréfi segir að við eigum að vara okkur á því að leyfa reiðinni að stjórna okkur. Þetta merkir ekki að öll reiði sé slæm heldur er mikilvægt að gefa því gaum hvaðan reiði okkar kemur og hvaða farveg við finnum henni.

Skilaboðin í ritningargrein Jakobsbréfs til okkar í dag eru skýr. Það er mikilvægt að við stöldrum við og íhugum hvaða áhrif orð okkar kunna að hafa á aðra,  „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.” Það er mikilvægt að við vöndum okkur í öllum samskiptum okkar, því orð særa og orð sögð í fljótfærni eða kerskni geta haft víðtækar afleiðingar, langt umfram það sem við ætluðum okkur í upphafi. Höfum það í huga þegar við komum til baka úr þessu ástandi.

Séra Ása Laufey Sæmundsdóttir

 

Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.

Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.

[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.