Tíminn er tilbúningur manna, hugarburður okkar er leitumst við að leggja mannlegan kvarða við alla hluti. Stund, dagur og ár eru eru ímyndanir okkar mannlega lífs þar sem við leitumst við að búta niður lifshlaup tilverunnar.
Lífsgangan hefst við Fögrudyr. Fögrudyr lífsins hinar fyrri opnast og við barninu blasir heimurinn. Fæðingin setur lífinu mörk, hún er upphafsaugnablik manns ævinnar. Tilvera okkar miðast við andardráttinn þegar naflastrengurinn til móður slitnar og líf verður sjálfstæð persóna. Við tengjum andardráttinn við lífið því án hans er það ekki til. Dauðinn leiðir okkur gegnum hinar seinni Fögrudyr lífsins. Þá hættir andardrátturinn að vera til. Líkaminn sofnar og vaknar ekki aftur til þessa lífs. En eilífðin opnast með öllu sínu undri. Guð gefur okkur lífið. Hann blæs lífsandanum í brjóst mannsins. Barn er í heiminn borið, nýr líkami og ný sál.
Upphaf þar sem aðeins framtíð er fyrir höndum, sagan öll ósögð. Frá móðurlífi myndaði ég þig segir Drottinn. Því fáum við tæpast neitað þar sem nú á dögum mikillar tækni má horfa á barn í móðurkviði og skynja vöxt þess og hreyfingu. Hin litla mannvera sem kemur í heiminn sem ósjálfbjarga barn á sér þegar nokkurra mánaða sögu. Framtíðin bíður barnsins segjum við en stundum verða stundirnar færri en við getum sætt okkur við. Þegar við horfum á slysin, sorgina og neyð lífsins í kringum okkur þá getum við vart varist þeirri hugsun að Guð sé fjarlægur og láti standi á sama um allt. Það er hann þó ekki. Guð er nálægur í öllu það sannfæring okkar sem á hann trúum.
Fögrudyr voru tilteknar dyr í helgidómi. Þær voru í musterinu þar sem lærsiveinar Jesú komu til að biðjast fyrir. Þar var líka lamaði maðurinn sem daglega var borinn þangað til að betla sér til framfæris. Sannarlega hefur verið erfitt líf á þeim tíma að vera lamaður. En þá eins og í dag voru til einhverjir sem létu sér annt um þá sem voru ósjálfbjarga. Vinir og eða ættingjar hafa séð um að hjálpa þessum manni og bera hann gegnum lífið. Fögrudyrnar hafa auðvitað verið ákjósanlegur staður til að betla. En einmitt þar við helgidóminn mýkjast hjörtu mannanna og þeir láta eitthvað af hendi rakna, þrátt fyrir almenna nísku og eigingirni sem oft eru föru nautar mannlegs lífs.
Lærisveinar Jesú voru ekki efnamenn í venjulegum skilningi. Þeir voru fyrst og fremst einfaldir alþýðumenn, fiskimenn frá Galíleu sem lifðu fábrotnu lífi í samspili við náttúruna og gjafir hennar. Þeir voru þar við iðju sína þegar Jesús valdi þá. Hann sagði þeim að hann myndi gera þá að mannaveiðurum. Það er trúboðum sem flyttu tíðindin um Jesú Krist um víðan völl og veröld alla. Auðvitað hefur Jesús vitað hvað hann var að gera þegar hann valdi þá. Vitað að fiskimannseðlið myndi skila sér í starfi þeirra að laða að fleiri fylgjendur. Þeir voru vanir erfiði. Vanir átökum bæði þegar stormur geysaði á vatninu og eins er vel aflaðist. Þeir kynntust líka vonbrigðum þegar lítið aflaðist og flest var þeim mótdrægt. Allt þetta hefur gert þá ákjósanlega til að glíma við erfiðleikana við upphaf kristni.
Lamaði maðurinn er vongóður er hann mætir hverjum nýjum manni og vonast eftir smá gjöf. „Lít þú á okkur.“ Sagði Pétur. Í þeim orðum getur margt falist. Sérðu ekki að við erum fátækir líka eða sjáðu okkur við erum öðruvísi, við höfum fengið kraft frá Jesú Kristi og líf okkar er ekki eins og annarra. En svo koma þessi mögnuðu orð: „Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ Og þarmeð fær hinn lamaði mátt og kraft til að ganga. Lömunin breyttist við þessar fögrudyr og nýtt líf tekur við hjá þessum manni, hann var læknaður.
Guð skilur okkur aldrei eftir. Hann er alltaf til staðar, þegar okkur virðist hann hafa hulið ásjónu sína þá er það ekki svo, heldur hitt að við sjáum hann ekki af þvi við lítum ekki þangað sem hans er að leita. Guð er ekki viljandi að láta okkur villast frá sér, það er ekki Guð sem veldur sorg eða óhamingju. Hið slæma sem gerist á vegi lífsins er ekki tilkomið vegna Guðs, það er ekki refsing hans sem á að bitna á okkur. Það er miklu fremur hið óútskýranlega böl sem engum tilgangi þjónar. Það slæma sem hendir var ekki þér ætlað, það gerðist hins vegar og þú tekur afleiðingum þess. Það er þá sem á þig reynir. Hver ertu þá að takast á við erfiðleikana í tilverunni.
Þó þú eigir hvorki silfur né gull kanntu að eiga annað að gefa sjálfum þér og öðrum. Trú, huggun, von, styrk og æðruleysi ásamt mörgu sem hjálpa kann á lífsins vegferð til Fögrudyra. Mannlegum skilningi eru takmörk sett. Við þekkjum þennan heim okkar nokkuð vel. Við höfum kannað náttúruna og himingeyminn. Þekkjum umhverfi mannsins og líkama en mannleg þekking svarar oft ekki fyllilega hinum stóru spurningum. Hvers vegna fæðumst við og hvert förum við þegar við deyjum? Drottinn Guð hefur með syni sínum frelsararnum Jesú Kristi veitt ákveðið svar hvað varðar tilgang mannlegs lífs. Svarið er næsta einfalt. Það byggir á elsku og um leið fyrirheiti um líf að loknu þessu jarðlífi.
Í Jóhannesarguðspjalli segir: “Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son seinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” Að kristnum skilningi er jarðlífið aðeins eitt augnablik í þeirri heildarvegferð sem manninum er ætluð. Stutt ganga um tvennar dyr. Öllu skiptir að sú ganga sé okkur og öðrum til góðs. Að við gefum af okkur til samferðafólksins og léttum göngu þess. Við syrgjum þau sem fara skemmri leiðina á undan okkur um „fögru dyrnar“ en okkur er ætluð lengri leiðin. Við þurfum að bíða um stund eftir á fá svörin sem eilífðin geymir. Þannig verðum við að halda áfram þessari lífsgöngu og leitast við að styðja þar hvert annað. Þar höfum við ekki annan kost. Við eigum minningarnar um ástvini okkar og þær eru dýrmætar en öllu lífi eru búin hin sömu örlög Fögrudyranna og eilífðarinnar. Guð blessi okkur vegferðina.
Séra Arnaldur Bárðarson
Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.
Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.
Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“