Bæn:  Drottinn! Gerðu mig að góðum ráðsmanni í aldingarði þínum.

 

Kæri lesandi.  Gleðilegt nýtt ár.  Við áramót lítum við oft um öxl.  Horfum yfir farinn veg, hvað hefur gengið vel og hvað mætti betur fara. Einskonar endurmat hlutanna.  Pistlahöfundurinn Guðmundur Brynjólfsson djákni þolir þetta reyndar ekki og orðaði það m.a. svo í pistli nýlega: “Samantekt á óáran er undarlegt, vægt til orða tekið, afþreyingarefni, ekkert skemmtiefni og lítt fallið til forvarna (eins og dæmin sanna). Það að velta sér upp úr því hvað gerst hefur, síðustu vikurnar, lýsir engu nema vitsmunalegu gjaldþroti”.  Ekki tek ég nú alveg undir þetta sjónarmið þótt það sé spaugilegt eins og margt sem hann skrifar.  Hins vegar bendir hann réttilega á að upprifjanir liðinna ára eru að stofni til upprifjanir á því sem miður fór, því sem brá út af vananum.  Fréttamaður sagði eitt sinn við mig að hið venjulega væri ekki frétt.  Frétt væri eitthvað sem væri á skjön við það sem venjulegt getur talist.  Að því leitinu er hætta á að upprifjanir á fréttum liðins árs séu í öfugu hlutfalli við veruleikann hvað jákvæðni eða neikvæðni snertir.  Því oftast er það nú þannig að hlutirnir hafa tilhneygingu til að fara vel, til að komast í réttan farveg á endanum.

En hvað stendur uppúr á árinu?  Við svörum því e.t.v. með ólíkum hætti en ég leyfi mér að nefna hér umhverfismál og setja það í samhengi við tvo ritningartexta.

Í annarri sköpunarsögu Gamla testamentisins er talað um hlutverk mannsins með þessum orðum:  “Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.”  Þetta var hlutverk mannsins.  Ráðsmennskuhlutverk.  Að hugsa um, að passa uppá, að vernda, að gæta.  Einmitt þetta hlutverk hefur verið mikið milli tannanna á fólki á árinu sem er að líða.  Og mesta athygli hefur vakið sú vakning sem er meðal ungs fólks, unglinga og jafnvel barna fyrir málstaðnum.  Þetta er mjög athyglisvert og virðingarvert.  Í mínum huga gefur þetta von um betri tíð hvað umgengni um náttúruna áhrærir.  Ég hef mikla trú á ungu fólki og tel að sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi eigi eftir að þykja eitt og annað sjálfsagt í umhverfismálum sem við sem eldri erum teljum e.t.v. óraunhæft eða bjartsýnishjal.

En annað sem fylgir þessu hugarfari hinna yngri er nytjahyggja, eftirsókn eftir að kaupa notaða muni og föt í stað þess að fylla allt af nýju.  Og hugsunin í því er ekki bara sú að spara peninga heldur að leggja áherslu á hófsemi og að nýta hlutina til fulls.  Margar verslanir með notaða hluti blómstra líka s.s. Kompan á Suðurnesjum og Góði hirðirinn í Reykjavík.

Þá kemur mér í huga eitt biblíuvers úr sæluboðum Jesú sem finna má í 5. kafla Matteuarguðspjalls, upphafi fjallræðunnar.  Þar segir Jesús m.a.:  “Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.”  Oft hverfur þetta sæluboð bara innan um öll hin.  En gefum þessu gaum.  Í íslenskri orðabók er orðið hógvær útskýrt sem lítillátur, sá sem ætlast til lítils, er hófstilltur.  Þannig nátengt orðinu hófsemi, að kunna sér hóf.  Andstæðan er græðgi, yfirgangur og óhóf.

E.t.v. er lykilinn að framtíð mannkyns á jörðinni fólginn í þessu litla sæluboði, Sælir eru hógværir því þeir munu jörðina erfa.  Þeir sem komast af, þeir sem munu eiga framtíðina fyrir sér eru þeir sem gera hóflegar kröfur, þeir sem nýta hlutina vel, þeir sem ganga vel um, þeir sem þekkja hringrás neyslu og sorps og sporna við hverkyns óhófi.  Það eru erfingjar jarðar, erfingjar framtíðarinnar, þeir sem raunverulega munu komast af í þessum heimi.

Það að horfa til baka og horfast í augu við þær hættur sem jörð okkar stendur frammi fyrir af mannavöldum hlýtur því að vera forsenda breytinga, forsenda framfara.  Og þar erum við í raun að horfa mörg ár og jafnvel aldir aftur í tímann til að draga ályktanir um þróunina í framtíðinni.  Þróun án aðgerða og eins þróun með aðgerðum.  Mestu máli skiptir sú vakning og meðvitund sem á sér stað hjá okkur hverju og einu, á hverju heimili og hverjum vinnustað.

Börnin okkar eru almennt miklu betri ráðsmenn í aldingarðinum Eden heldur en við sem eldri erum.  Ný þekking hefur auðvitað sumpart vakið okkur til meðvitunar um eitt og annað sem hefði þurft að vera öðruvísi en við breytum víst ekki því sem búið er.  Við getum hins vegar haft mikið um það að segja hvernig framtíðin verður.  Ungu kynslóðinni finnst svo margt sjálfsagt sem við spáðum ekkert í fyrir nokkrum árum.

Það er mikilvægt að horfa á umhverfissjónarmið með augum guðfræðinnar einmitt með því að minnast hlutverks mannsins í sköpunarsögunni sem ég vísaði til í upphafi.

Gott er að hefja nýtt ár á vangaveltum um ráðsmennskuhlutverk mannsins.

Guð blessi þig og gefi þér gleði og farsæld á nýju ári.

 

Sigurður Grétar Sigurðsson

Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.

Kristur dó[ fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“