Alla morgna vaknar fólk af svefni sínum. Á einu augabragði er vekjaraklukkan gellur er farið úr svefni í vöku. Meðvitundin er vakin af blundi og gengið er til nýs dags.

Samt átta margir sig ekki á, né vita, að flest af því sem síðan er gert um daginn er ómeðvitað. Ýmislegt skýtur upp kollinum í sálarlífinu og tekur völdin um stund. Þá sömu stund og það tekur mann að vakna til vitundar um það sem skaut upp kollinum eða vaknaði í samskiptum manna á milli og ekki síst við mann sjálfan.

Að vakna af svefni vitundarinnar er ævilangt verkefni. Og það er flókið vegna þess að sannleikurinn um mann sjálfan getur verið sár og snúinn, en eftir sem áður nauðsynleg glíma. Það er vegna þess að vitund er lykill að lífi og merkingu. Það skiptir miklu máli þegar upp er staðið.

Tilvera þín skiptir máli. Tilvera þín er eins og dropi sem breytir veig heillrar skálar. Og þú sjálfur eða sjálf verður þessi guðaveigur sem lífgar sálaryl. En til þess þarftu að vakna.

Hvað var það sem breytti lífi þínu, í það líf sem þú lifir í dag?

Hvað var það sem gerði það að verkum, að líf þitt tók stefnu þegar þú varst barn að aldri?

Og hvert hefur það allt saman leitt þig?

Það er töluvert flókið þroskaferli sem við göngum í gegnum ævina á enda, fáum við til þess líf og heilsu. Og ef það er rétt skilið, að við getum aukið og dýpkað persónulegan og andlegan þroska okkar svo lengi sem við lifum, þá er eftir nokkru að slægjast. Vitund okkar getur vaxið og meðvitundin um okkur sjálf sem persónur sömuleiðis.

En viltu vakna? Eða dormar þú aðeins lengur?

Þannig er það líka um hið ómeðvitaða í sálfarlífinu. Þetta sem sefur í þér og fær ekki að vakna úr bólfestu sinni. En það getur gengið í svefni. Þegar það gerist, þá gerist slík með ýmsum hætti.

Hvað þarf yfir höfuð til, til að vera maður sjálfur? Hvað þarf til að geta orðið viðfang eigin lífs, þar sem eigin dómgreind, ígrundaðar ákvarðanir og upplýstur eigin vilji, ættu heima? Já og vaknandi hugur, vakandi vitund. Hvað þarf til að reyna að taka eftir því sem streymir til manns, úr djúpi sinnar eigin veru?

Hvað merkir það, að vera til staðar í eigin lífi?

Hvað þarf til að helga sig eigin lífi, af ástríðu og vera í reynd, til staðar í eigin lífi.

Aðstæður sem voru á þeim degi, sem við fæddumst, voru eins og þær voru – en þær ákvarða ekki hver við verðum. Hvert og eitt okkar stendur frammi fyrir kröfu ákveðinna aðstæðna,

að lifa lífi, sem aldrei hefur verið lifað áður og hafa kjark til þess.

Og þar kemur Guð inní. Guð þarf á manninum að halda til að vitundin um Guð vakni. Og þá rætist það í manni þetta innan skamms guðspjallsins og það lýkst upp, til þess þáttar sem breytir myrkri í ljós! Breytir myrkri þínu í ljós.

Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?

Og þetta sem vottar fyrir innan skamms- í rúmi og í tíma- það verður í þér þegar þú gerir hinum hæsta bústað í þér, þegar þú vaknar til sjálfs þín…
og til Guðs.

Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum og þá mun Kristur lýsa þér. (Efes. 5, 14.)

Sr. Axel Árnason Njarðvík

Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið
og braut yfir hin ströngu vötn,
hann sem leiddi út vagna og hesta
ásamt öflugum her
en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur,
þeir kulnuðu út eins og hörkveikur.
Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?
Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.

Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi. Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“

Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“

Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.