Vinur minn sagði mér eitt sinn brot úr sinni lífssögu. Sagan hefur dvalið með mér síðan. Hún er stutt, innihaldsrík og sterk, og hljómar svona: „Ég var eitt sinn frekar illa á mig kominn, hrakinn og niðurlútur eftir langan erfiðan kafla í mínu lífi. Þrátt fyrir ástand mitt þá þurfti ég að ferðast langa leið, þegar ég var sestur þá kom þar fullorðinn maður og settist við hlið mér. Ég hef ekki litið vel út og líklega ekki lyktað vel en hann gaf sig á tal við mig. Ég man svo sem ekki allt sem okkur fór á milli en nærveran var þægileg. Þegar hann var við það að kveðja mig þá sagði hann; Ég lofa þér því að þú þarft bara einn vin í lífinu, vin sem mun aldrei yfirgefa þig. Vinur minn spurði þá; hver er þessi vinur? Maðurinn svaraði; Þú munt finna út úr því!“ Það tók vin minn nokkur ár að átta sig á því hvaða vin maðurinn var að tala um.

Við lesum í textum dagsins að Guð þekkir hverja stjörnu með nafni, hann sér jörðinni fyrir regni, gefur skepnunum fóður, hann safnar saman þeim sem hafa tvístrast, sækir þá týndu, græðir sundurkramin hjörtu, styður hjálparlausa og gefur þeim snauðu. Guð sinnir sköpun sinni, þekkir hana og er umhugað um hana. Guð gefur í mildi góðar gjafir. Gjafir sem margfaldast. Maðurinn sem settist hjá vini mínum hafði þegið gjöf frá Guði sem hann gaf áfram til vinar míns. Ég meðtók gjöfina frá vini mínum og gef hana áfram til þín, kæri lesandi.

Guð skapaði manneskjuna, þig. Hann þekkir þig og er umhugað um þig. Guð getur og vill veita börnum sínum ríkulega, til þess að mæta þörfum þeirra og svo þau geti gefið af sér, til góðra verka, hann eykur ávöxtinn, til þess að börn hans geti sýnt örlæti. Guð hefur augastað á fólkinu, kennir í brjósti um það og sýnir fyrirhyggju því til handa. Þetta sjáum við í sögunni þar sem Jesús biður lærisveina sína að hjálpa sér að gefa mannfjöldanum stund til að hvílast og mettast svo fólkið hafi orku til að komast í gegnum daginn. Hann blessaði brauðið og fiskinn, hann var og er vinur í raun.

Sr. Díana Ósk Óskarsdóttir

Hallelúja. Gott er að syngja Guði vorum lof. Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur. Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra. Hann ákveður tölu stjarnanna, nefnir þær allar með nafni. Mikill er Drottinn vor og voldugur í mætti sínum, speki hans ómælanleg. Drottinn styður hjálparlausa en óguðlega fellir hann til jarðar. Syngið Drottni þakkargjörð, leikið fyrir Guði vorum á gígju. Hann hylur himininn skýjum, sér jörðinni fyrir regni, lætur gras spretta á fjöllunum, gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum þegar þeir krunka. Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins, hrífst ekki af fráum fótum mannsins. Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann, þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu. Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að.“ Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“ Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ Þeir sögðu: „Sjö.“ Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.