Nú er fyrsti vetrar dagur að baki, vetur genginn í garð og við getum átt von á ýmsu. Það ríkir sannarlega óvissa. Óvissan hefur margar birtingamyndir. Verður veturinn snjóþungur og stormasamur eða stjörnubjartur og stilltur?

Hér áður fyrr mátti reikna með því í vondum veðrum að rafmagnið færi af en það þótti ekki mikið mál nema einna helst þegar kom að því að elda, þá var fólk ekki mikið í tölvum eða símum og vanara því að sjá um eigin afþreyingu. Þá var bara kveikt á kerti, sveipað um sig teppi og lesið í bók eða rýnt í teiknimyndarsögur. Þetta var oftast mjög notaleg stemning. En það lá samt ógn í loftinu, fólki stóð oft ekki á sama þegar veður voru vond og sumir kviðu myrkrinu. Snjóflóð, ófærð, ólgusjór, drungi og mikill kuldi hafði áhrif á daglegt líf. Þessi óvissa vetursins á enn við í dag og margt fólk kannast við það að kvíða myrkrinu og kuldanum.

Óvissa getur valdið mikilli streitu og óvissa í málum reynir oft meira á fólk en erfið útkoma. Bið, spenna, áhyggjur og eirðarleysi eru fylgifiskar óvissunnar, allt setur þetta hnút í magann og ýtir undir kvíða og stundum depurð. Það er tvennt sem gerist við óvissu aðstæður. Það fyrsta er að þegar fólk veit ekki hvað morgundagurinn ber með sér verður það upptekið við það að hugsa um framtíðina og sum sækja sér huggun í fortíðinni. Fortíðin ber með sér reynslu sem hægt er að sækja í, gömul tengsl og ljúfar minningar. Á meðan fólk er upptekið við að hugsa um fortíðina eða framtíðina þá gleymist núið. Núið, hin líðandi stund, Lífið. Lífið er akkúrat núna. Eins og John Lennon sagði: „Life is what happens to you when you are busy making other plans“ eða á okkar ylhýra: Lífið er það sem gerist meðan þú ert upptekin við aðrar áætlanir.
Það seinna er, eins og ég sagði áðan þá veldur óvissa áhyggjum og streitu, en öll streita hefur áhrif á innra líf einstaklingsins. Hún getur valdið því að fólk eigi erfitt með að upplifa gott sjálfsmat, sem sé fólki fer að finnast lítið til sín koma og fer að efast um eigin hugsanir og tilfinningar, það efast jafnvel um það hver við erum eða hvaða persónu það hefur að geyma eða hvort það sé yfirleitt góðar manneskjur. Þessari óvissu fylgir oft mikill sársauki.

En hvað þurfum við að gera til þess að tryggja okkur og fólkinu okkar gott og gleðiríkt líf, þrátt fyrir óvissu og óöryggi á dimmum vetrum. Svarið felst í ljósinu, sannleikanum. Það er til mikils að vinna, að losa streituna, draga úr áhrifum óvissunnar með því að muna eftir Guði. Hvíla í því að að við erum fullkomin sköpun þrátt fyrir að vera aðfinnanleg í augum samfélagsins sem hefur hin ýmsu viðmið. Viðmið sem er jafn erfitt að elta eins og vindinn sjálfan. Hættum í þeim eltingaleik og keppum frekar eftir því að umfaðma okkur, VERA, og njóta augnabliksins. Líkt og fólk gerði í kulda og stormum sem skullu á hér áður fyrr. Hugsið ykkur hvað það er miklu betra að sitja í kertaljósinu og eiga stund með fólkinu sínu eða rýna í góða bók en að agnúast yfir rafmagnsleysi. Við þurfum bara að bera einn dag í einu, lifa einn dag í einu. Og muna að ljós lifsins er til fyrir hvert og eitt okkar.

Við erum ofin í móðurkviði af himneskum föður okkar sem hefur ritað lífshlaup okkar niður, hvern dag áður en hann varð til orðinn. Þetta lesum við í sálmi 139. Guð elskar okkur eins og við elskum börnin okkar, sama hvaða leið þau velja sér. Nema það að elska Guðs er laus undan okkar mannlegu viðmiðum. Hún er því algerlega skilyrðislaus. Guð horfir á hjartað, elskar okkur nákvæmlega eins og við erum og leitast við að leiða okkur hinn eilífa veg, hann er okkur hæli og styrkur. Í skugga vængja hans er gott að dvelja. Með Guð sér við hlið víkur óttinn líkt og þegar við kveikjum örlitla ljóstýru í svarta myrkri, þá víkur myrkrið fyrir ljósinu. Skammdegið kallar á sólina. Nú er að fara af stað þessi tími þar sem myrkrið er að verða meira en á sama tíma ræður ljósið ríkjum, við fólkið, kveikjum ljós vonarinnar. Það eru ekki margir dagar fram að vetrarsólstöðum. Þá byrjar daginn að lengja aftur, þá hefur ljósið, enn á ný sigrað myrkrið, veturinn víkur fyrir vorinu og allt lifnar að nýju. Megi okkar algóði Guð blessa ykkur, umfaðma ykkur og leiða ykkur, dag í senn, eitt andartak í einu.

Díana Ósk

Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“
Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:
„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“
Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.
Gerið allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.
Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“
Þeir svara: „Sá fyrri.“
Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“