Á mörgum heimilum er enn þeirri fornu venju viðhaldið að leyfa ljósum að loga á jólanóttina til þess að minna á að ljósið er komið í heiminn í tvennum skilningi. Ljósið logar til að tengja saman dag og nótt. Skapari ljóssins leggur sitt jarðneska ljós yfir jörðina en sitt himneska ljós leggur hann í jötu.

 

Guð hefur talað til okkar Orðið sem var í upphafi. Orðið sem skapaði þennan heim og greindi ljósið frá myrkrinu, allur sköpunarkraftur Guðs varð maður, varð barn í jötu. Með því er þessi kraftur ofurseldur mannlegum duttlungum og mannlegum breyskleika í fullu trausti hins elskandi Guðs til mannanna. Hann var gefinn í hendur þeirra á ótryggum tímum. Þeir tímar eru enn. Orðið sem er barn í jötu og frelsari heimsins, hann er gefinn í hendur okkar. Orðið sem skapaði þennan heim, sköpunarorðið sjálft er komið til jarðar til þess að vera orð frelsisins, orð hinnar nýju sköpunar. Þetta orð er líka lagt í munn þeirra sem falið er að leggja það út og boða það. Guð treystir okkur til þess. Í því felst í senn hin þyngsta ábyrgð og hið léttasta ok.

 

Hinn rauði þráður í predikun kynslóðanna er þessi: Koma Krists í heiminn er þrenns konar : Fæðing hans forðum í Betlehem, hinn nýja fæðing hans í hjörtum þeirra sem trúa hér og nú og koma hans um síðir til að dæma og frelsa og umskapa. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu.

Orðið sem í öndverðu skapaði heiminn skildi myrkrið frá ljósinu. Orðið sem í upphafi var, það varð hold á jörð og býr með oss. Í því var líf, og lífið er ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Þessi stóru orð mæta litlu fólki.

 

Hirðarnir á Betlehemsvöllum eru í stóru hlutverki í boðskap jólanna. Þeir voru fulltrúar hinna smáu þessar jarðar sem vitna um Orðið. Þeir hlupu út í myrkrið með jólaboðskapinn knúðir af barnslegri gleði og fögnuði. Leyndardómurinn um elsku Guðs til mannanna verður ekki sagður með öðrum hætti. Sá boðskapur er í senn elskulegur og ægilegur. Frammi fyrir hátign Guðs verður hver maður smár. Frammi fyrir hinu heilaga og hreina verða saurinn og syndin svo svört. Líka þegar Guð vil elska það allt saman burt. Reynsla hirðanna er reynsla allra manna þegar Guð birtist þeim. Hann er tjáður með orðunum: Ótti, undrun, friður, fögnuður. Hirðarnir reyndu það og síðan allir aðrir. Hinn huldi Guð verður sýnilegur. Sá Guð sem öll á himins hnoss, varð hold á jörð og býr með oss.  Hann er sá sem var og sá sem er og sá sem kemur!

 

Þessvegna segjum við hvert öðru enn þessa sömu sögu. Þessi atburður er ekki fjarlægur og ekki bundinn neinum þeim veruleika sem er frábrugðinn okkar eigin, hverjar svo sem kringumstæður okkar eru, hið ytra eða innra. Engillinn kallar okkur til að koma og sjá og trúa í sömu einlægni og einfeldni og barn. Og þessvegna ljómar dýrð Drottins einnig í kringum þig og mig á þessum jólum og friður hans stígur inn í huga og hjarta, hreiðrar um sig í sálinni og opnar hendurnar til góðra verka.

 

Séra Kristján Valur Ingólfsson

En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.
Hann mun tryggja friðinn.

Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.